540 á strandveiðum

Heimilt er að veiða allt að 8.600 tonn af óslægðum …
Heimilt er að veiða allt að 8.600 tonn af óslægðum botnfiski. mbl.is/Rax

Alls eru 540 bátar á strandveiðum en þær hófust í dag. Það er bræla fyrir austan land og því fáar þar á sjó og eins eru fáir á veiðum á Breiðafirði  vegna norðanstrekkings. 

Samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð siglinga hefur sjósóknin í dag gengið áfallalaust fyrir sig.

Á tímabilinu maí, júní, júlí og ágúst er heimilt að veiða á handfæri allt að 8.600 lestir af óslægðum botnfiski á strandveiðum. Sá afli reiknast ekki til aflamarks eða krókaaflamarks þeirra fiskiskipa sem stunda veiðarnar.

Fái fiskiskip leyfi til strandveiða, falla úr gildi önnur veiðileyfi sem skipið kann að hafa innan íslenskrar lögsögu. Þó getur fiskiskip ekki stundað strandveiðar ef flutt hefur verið meira aflamark, í þorskígildum talið, frá skipi en flutt hefur verið til þess.

Landinu er skipt í fjögur veiðisvæði. Leyfi til strandveiða eru veitt á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðaraðila viðkomandi báts er skráð og eingöngu er heimilt að landa afla innan þess landsvæðis á veiðitímabilinu. Aflamagn er háð takmörkunum fyrir hvert landsvæði innan hvers mánaðar. Sé heimildin ekki fullnýtt flyst heimildin á milli mánaða, allt til ágústloka. Í reglugerð um strandveiðar fiskveiðiárið 2014/2015 er veiðisvæðum og magni á hverjum tímabili skipt svo:

  • Svæði A: Eyja- og Miklaholtshreppur til Súðavíkurhrepps. Í hlut þess koma 715 tonn í maí, 858 tonn í júní, 858 tonn í júlí og 429 tonn í ágúst.
  • Svæði B: Strandabyggð til Grýtubakkahrepps. Í hlut þess koma 509 tonn í maí, 611 tonn í júní, 611 tonn í júlí og 305 tonn í ágúst.
  • Svæði C: Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps. Í hlut þess koma 551 tonn í maí, 661 tonn í júní, 661 tonn í júlí og 331 tonn í ágúst.
  • Svæði D: Sveitarfélagið Hornafjörður til Borgarbyggðar. Í hlut þess koma 600 tonn í maí, 525 tonn í júní, 225 tonn í júlí og 150 tonn í ágúst.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert