Önnur aðkoma en dregin er upp

Magnús Guðmundsson ásamt verjanda sínum.
Magnús Guðmundsson ásamt verjanda sínum. mbl.is/Árni Sæberg

Hlutverk Magnúsar Guðmundssonar, fv. forstjóra Kaupþings banka í Lúxemborg, í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings, var að koma á tengingum við væntanlega kaupendur að bréfum í Kaupþingi sem svo voru fjármögnuð af bankanum sjálfum með veði í bréfunum. Þetta kemur fram í ákæru í málinu, en Magnús segir sjálfur að þetta standist enga skoðun.

Allt önnur aðkoma en saksóknari dregur upp

Í yfirheyrslum yfir Magnúsi í dag sagði hann að það væri rétt að hann hafi rætt við tvo aðila sem áttu félög sem keyptu í Kaupþingi. Aðkoman sé þó allt önnur en saksóknari dragi upp og þá hafi verið fjármagn og veð á bak við kaupin, öfugt við það sem saksóknari hefur lýst.

Félögin sem um ræðir eru Mata, Holt og Desulo. Egill Ágústsson átti Desulo og sagði Magnús til að mynda að hann hefði aldrei rætt við Egil, heldur hefði annar starfsmaður í Lúxemborg gert það. Sá starfsmaður, Einar Bjarni Sigurðsson, sagði aftur á móti við yfirheyrslur að hann hafi fengið fyrirmæli frá Magnúsi um að hafa samband við Egil.

Mikil töf á afgreiðslu veðs

Skúli Þorvaldsson var eigandi Holt og sagði Magnús að hann hafi sannarlega verið í sambandi við hann. Skúli hafi verið viðskiptavinur hans hjá bankanum, en að viðskiptin með bréf Kaupþings hafi verið áhættuviðskipti fyrir Skúla þar sem hann lagði undir 1 milljarða hlut sinn í Skiptum sem veð. Það sé því rangt að það hafi verið án tryggingar.

Mikið var komið inn á töf við afgreiðslu veðsins, en það var afgreitt 6 mánuðum eftir að lánið var veitt. Sagði Magnús að það hefði ekki verið á hans könnu, enda var hann í raun forsvarsmaður Skúla í viðskiptunum gagnvart Kaupþingi banka og þá hafi hann ekkert með veðin eða slíkt að gera.

Í máli Mata, þá kom fram að Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi, hafi haft samband við Magnús og spurt hvort hann gæti heyrt í Gunnari Þór Gíslasyni, eiganda félagsins og athugað hvort hann og fjölskylda hans vildi ekki gerast stærri hluthafar í bankanum. Magnús staðfesti að hafa átt í samskiptum við Gunnar, en að í því hafi ekki falist annað en að vekja áhuga hans á félaginu, ekkert tilboð um tryggingalaust lán hafi fylgt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert