Færðu kirkjuna til hliðar

Kirkjan hífð í dag.
Kirkjan hífð í dag. Ljósmynd/Dröfn Freysdóttir

„Það á að steypa nýjan grunn undir kirkjuna og menn töldu að þetta væri besta leiðin til þess,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps, en gamla kirkjan á staðnum var í dag færð af grunni sínum með krana og sett til hliðar við hann. Kirkjan var upphaflega reist á Djúpavogi árið 1894 og voru gerðar ýmsar endurbætur á henni næstu áratugina. Ný kirkja tók við hlutverki hennar árið 1996. 

„Við rekum, að okkar mati að minnsta kosti, mjög metnaðarfulla stefnu varðandi endurbyggingu á gömlum húsum. Sveitarfélagið keypti kirkjuna fyrir ekki alls löngu og við höfum verið að endurbyggja hana með aðstoð Minjastofnunar. Við erum sömuleiðis að vinna að endurbyggingu á Faktorshúsinu í samvinnu við sömu stofnun og endurbyggðum Löngubúð einnig á sínum tíma. Þetta eru allt liðir í þessari stefnu,“ segir Gauti. Þá séu skrifstofur sveitarfélagsins í húsi sem reist hafi verið árið 1900 sem að sama skapi hafi verið gert upp.

Markmiðið sé að standa vörð um menningararf sveitarfélagsins og sögu þess. Bæði fyrir núverandi íbúa og þá sem sækja sveitarfélagið heim sem og komandi kynslóðir.

Dröfn Freysdóttir, íbúi á Djúpavogi, tók myndskeið af því í dag er kirkjan var tekin af grunninum.

Kirkja á ferðinni!!

Posted by Dröfn Freysdóttir on Wednesday, May 6, 2015
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert