Myndskreytti spænska bók um víkinga

Stefanía Ósk Ómarsdóttir gaf út sína fyrstu myndskreyttu bók á …
Stefanía Ósk Ómarsdóttir gaf út sína fyrstu myndskreyttu bók á dögunum. ljósmynd/Úr einkasafni

„Þetta er mjög gefandi og ánægjulegt,“ segir teiknilistamaðurinn Stefanía Ósk Ómarsdóttir, sem á dögunum gaf út sína fyrstu myndskreyttu bók. Stefanía er búsett í Barcelona á Spáni, þar sem hún lærði myndskreytingu og teiknimyndagerð, og gaf hún bókina út þar í landi í samstarfi við útgáfufyrirtækið Thule Ediciones.

Bókin, sem heitir Vinland: La saga de Freydís Eiríksdóttir, er hluti af seríu sem byggist á að varpa ljósi á gamla og jafnvel gleymda menningarheima, og með því bæði fræða og skemmta lesandanum. Serían sem kemur út heitir Acervo, og hafa þegar verið gefnar út sögur um forngrikki, rómverja o.f.l. 

Hefur fengið mjög góð viðbrögð

Stefanía lærði myndskreytingu og teiknimyndagerð (Ilustración y Animación Multimedia) við Istituto Europeo di Design Barcelona árin 2009-2012, og tók svo mastersnám við IDEC-Universidad Pompeu Fabra í Þrívíddar teiknimyndagerð (Animación 3D) sem hún kláraði í janúar 2014.

Er þetta fyrsta alvöru verkefni Stefaníu eftir útskrift, og segir hún ferlið hafa verið bæði strembið og lærdómsríkt. „En ég held að það sem standi mest upp úr sé hversu góð viðbrögð ég hef fengið vegna bókarinnar frá fólki hérna, þar sem ég var sjálf búin að vinna svo náið í þessum teikningum í svo langan tíma að ég hafði ekki hugmynd hvort ég væri að gera eitthvað alveg út í hött eda hvort ég væri á réttri leið.

Tengdist menningarheimi bókarinnar

Aðspurð um það hvernig bókin varð til segir Stefanía það hafa verið Salva Rubio, höfundur bókarinnar, sem stakk upp á því við útgáfufélagið að gera sögu um víkinga. Sagan sé byggð á „sönnum” atburðum, eins og þeim sem lýst er í Grænlendingasögu og Eiríks sögu Rauða.

Vinkona hennar, sem vinnur sem grafískur hönnuður hjá Thule Ediciones, stakk upp á því að haft væri samband við Stefaníu til að myndskreyta bókina, þar sem það er stefnan í Acervo seríunni að listamaðurinn sem sjái um myndskreytingarnar í hverri bók sé frá landi sem tengist menningarhópnum að einhverju leyti. „Ég fór svo á fund með José Díaz, útgáfustjóra Thule Ediciones, þar sem hann útskýrði fyrir mér verkefnið, og við ræddum um mögulegar þjóðsögur til að byggja söguna á.“

Fleiri verkefni í bígerð

Stefanía byrjaði að vinna í bókinni af alvöru í kringum febrúar 2014, þegar sagan var orðin tilbúin og hún búin með mastersnámið sitt í Barcelona. Það var svo þann 23. mars sl. sem fyrsta útgáfa kom út. Myndskreytingarnar sækja innblástur í handverk víkinga í skandinavíu, eins og til dæmis rúnasteina og skrautskurði bæði í tré, málm og stein.

Í augnablikinu er bókin aðeins í sölu á Spáni, en Thule Ediciones hafa þegar haft samband við útgáfufélag á Íslandi til að sjá hvort áhugi sé á því að gefa bókina út á íslensku að sögn Stefaníu, „en það á eftir að koma í ljós vonandi sem fyrst“.

Þá segir hún þau Salva Rubio stefna á aðra útgáfu með Thule Ediciones, um börn sem eiga foreldra sem eru „metalhausar“ og er hugmyndin að bera þá saman við „venjulega“ foreldra með léttum húmor. „Ég hlakka mjög til að sjá hvernig það verkefni mun ganga, og hvað fleira framtíðin ber í skauti,“ segir Stefanía.

Hægt er að fylgjast með Stefaníu á Facebook-síðu hennar.

Myndskreytingarnar sækja innblástur í handverk víkinga í skandinavíu.
Myndskreytingarnar sækja innblástur í handverk víkinga í skandinavíu.
Salva Rubio, höfundur bókarinnar.
Salva Rubio, höfundur bókarinnar. ljósmynd/Úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert