Bjarni vill breyta þingsköpum

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Gera þarf verulegar umbætur á þingsköpum í þeim tilgangi að gera starf þingsins skilvirkara og auka afköst, að mati Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra. Í færslu á Facebook-síðu sinni leggur Bjarni m.a. til að forseti Alþingis fái meiri völd og tími til að ræða mál verði takmarkaður.

Miklar deilur hafa staðið á þingi síðustu þrjá daga eftir að sett var á dagskrá breytingatillaga við þingsályktunartillögu um að fjölga virkjunarkostum í rammaáætlun. Í færslu á Facebook-síðu sinni skrifar fjármálaráðherra meðal annars:

„Eftir rúman áratug á Alþingi er ég orðinn sannfærður um að það þarf að gera verulegar umbætur á þingsköpum í þeim tilgangi að gera starf þingsins skilvirkara og auka afköst.
Við þurfum að horfast í augu við að núgildandi reglur bjóða heim hættunni á að þegar ágreiningur ríkir um mál leysist þingið upp í opinn vettvang fyrir rifrildi sem engu skilar fyrir samfélagið. Það leiðir aftur til þess að dregur úr virðingu fyrir þingstörfunum. Menn mala fram á nótt, taka marga þingdaga í að ræða tiltölulega einföld mál til að styrkja stöðu sína þegar dregur nær þinglokum. Við erum í þessum sporum í dag. Einu sinni enn.,“ skrifar Bjarni.

Hann tekur fram að sjálfur hafi hann verið beggja vegna borðs í þessu og sé ekki að saka stjórnarandstöðuna um að gera annað en hann hefði mögulega gert við sömu aðstæður og við sömu reglur. Til úrbóta leggur hann til fjórar breytingar:

1. Mál fái ákveðinn takmarkaðan tíma til umræðu.
2. Völd forseta til að stjórna þingstörfum aukin.
3. Minnihlutavernd aukin til jafnvægis við 1 og 2.
4. Mál sem ekki er lokið á þingvetri lifi áfram innan kjörtímabils (stjórnarskrárbreyting).

„Með þessum breytingum myndum við færa þingstörfin nær því sem gerist víðast í kringum okkur. Það er ekkert eðlilegt við fyrirkomulag sem hefur hvata til að tefja og draga afgreiðslu allra mála þannig að semja þurfi að vori um þau mál sem „má“ greiða atkvæði um. Önnur falli niður. Þetta leiðir aftur til þess að lengja þarf þingstörfin og við höldum ekki starfsáætlun (sem heyrir til algerra undantekninga á öðrum þjóðþingum),“ skrifar Bjarni.

Eftir rúman áratug á Alþingi er ég orðinn sannfærður um að það þarf að gera verulegar umbætur á þingsköpum í þeim...

Posted by Bjarni Benediktsson on Friday, 15 May 2015
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert