FG brautskráði 85 nemendur

Ljósmynd/Gunnar Hólmsteinn Ársælsson

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ brautskráði 85 nemendur við hátíðlega athöfn laugardaginn 23. maí í hátíðarsal skólans, Urðarbrunni. Dúx skólans að þessu sinni var Dagmar Björk Bjarkadottir af málabraut en fjölmargir aðrir nemendur fengu einnig viðurkenningar fyrir ágætan námsárangur.

Í ræðu sinni vék Kristinn Þorsteinsson skólameistari FG að starfi kennarans og lagði mikla áherslu á þau áhrif sem kennarar og kennsla hefur í samfélaginu: „Kennsla er merkilegt starf og við kennarar eigum að vera stolt af starfi okkar og fá þannig tækifæri til að hafa áhrif á framtíð þessa lands,“ sagði Kristinn og bætti því við að samfélög með góða skóla væri samfélög með mikla möguleika, að því er fram kemur í tilkynningu frá skólanum.

Þá ræddi Kristinn einnig þær breytingar að frá og með næsta hausti tekur FG upp þriggja ára nám til stúdentsprófs og telur hann að skólinn sé vel undir það búinn. Hann lagði einnig áherslu á að í sambandið við þær viðamiklu breytingar sem nú væru framundan væri mikilvægt að nægilegt fjármagn fylgdi með til skólanna frá ríkisvaldinu.

Við athöfnina voru tveir starfsmenn skólans sæmdir gullmerki FG, en þeir kveðja nú skólann eftir langa veru þar. Þetta voru þær Marta Ólafsdóttir lífræðikennari og Jónína Kristjánsdóttir, sem starfað hefur á skrifstofu skólans. Marta kenndi í alls 28 ár við FG.

Fjöldi ávarpa og heimatilbúinna atriða frá nemendum voru flutt og ávarp nýstúdents flutti Tómar Geir Howser Harðarson, sem vakti landsathygli í spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur nú í vetur.

Tómar Geir Howser Harðarson flutti ávarp nýstúdents.
Tómar Geir Howser Harðarson flutti ávarp nýstúdents. Ljósmynd/Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
Dúx skólans var Dagmar Björk Bjarkadottir af málabraut.
Dúx skólans var Dagmar Björk Bjarkadottir af málabraut. Ljósmynd/Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert