Fulltrúar lækna í Evrópu á Íslandi

Katrín Fjelsted ásamt nýkjörnum formanni CPME, dr. Jacques de Haller …
Katrín Fjelsted ásamt nýkjörnum formanni CPME, dr. Jacques de Haller frá Sviss sem tekur við formennsku þann 1. janúar 2016. mbl.is/Kristinn

Katrín Fjeldsted, formaður evrópsku læknasamtakanna CPME, segir ýmsa heilbrigðispólitík og læknapólitík vera til umræðu á aðalfundi samtakanna CPME sem var haldinn á Grand Hotel Reykjavík í dag.

„Samtökin byggja á að koma sér saman um stefnu í ýmsum málum og er það grundvöllurinn sem við byggjum á þegar rætt er við stjórnmálamenn heima eða erlendis. Málefnin eru byggð á lýðræðislegri vinnu læknafélaga landanna, stjórnir þeirra hafa unnið sína heimavinnu, tekið afstöðu til málanna og kemur fulltrúi þeirra með innlegg inn í þá stefnu sem síðan er afgreidd,“ segir Katrín en hún hefur gegnt formannsembættinu frá árinu 2013, en kosið er til þriggja ára í senn. 

Skrifstofa CPME er staðsett í Brussel og starfa þar níu manns, og segir Katrín það vera aðal atriðið í því að reka samtök á borð við CPME að hafa öflugt starfslið á skrifstofunni. Aðalfund samtakanna sóttu 80-90 manns frá 29 löndum. „Þetta eru þau lönd sem eru í ESB, fulltrúar læknafélaga þeirra landa,“ segir hún en CPME eru eini sameiginlegi vettvangur sem læknafélög Evrópulanda hafa til þess að ræða þau málefni sem brenna á félögunum að hverju sinni.

Fulltrúar læknastéttarinnar í Evrópu

Katrín segir samtökin vera fulltrúa læknastéttarinnar í Evrópu gagnvart Evrópuþinginu, Evrópuráðinu og stofnunum Evrópusambandsins. „Við tölum fyrir málefnum lækna, sjúklinga og heilbrigðisþjónustunnar, og fylgjumst við með því sem er að gerast í Evrópu og komum því áleiðis til lækna. Þá tökum við þátt í að vera með frumkvæði í ýmsum málum og komum þannig af stað umræðu í Evrópu, hvort sem það er á heimavelli hverrar þjóðar eða á Evrópuvettvangi almennt.“

Hún segir stærsta atriði aðalfundarins hafa verið kosning nýrrar stjórnar en dr. Jacques de Haller frá Sviss var kjörinn næsti formaður samtakanna og tekur hann við formennskunni þann 1. janúar næstkomandi. Þá segir hún að ýmis mál hafi verið rædd í vinnuhópum í gær, m.a. staðlavinna sem hefur farið fram í Evrópu að undanförnu, og læknar eru ósáttir við.

„Við teljum að það sé verkefni lækna að ákveða hvernig þeir staðla eða skipuleggja sína vinnu,“ segir hún aðspurð út í það hver stefna félagsins sé í því máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert