Gleðskapur fór úr böndunum

Um klukkan fimm í gær brutu tveir ungir menn rúðu í strætóskýli við Gullinbrú. Þegar lögregla hafði af þeim afskipti gáfu þeir þá útskýringu að strætó hefði ekki stoppað fyrir þeim og þeir tóku pirringinn út af því út á strætóskýlinu.

Rétt eftir klukkan 21:00 voru tveir menn að áreita vistmenn og starfsmenn Götusmiðjunnar. Þeim var vísað á brott. Annar þeirra þáði svo gistingu hjá lögreglu seinna um nóttina.

Um miðnætti var tilkynnt um mikinn samkvæmishávaða sem ekki var hægt að sinna sökum þess að lögreglumenn á svæðinu voru uppteknir í Gullhömrum vegna slagsmála. Þar voru tveir handteknir vegna líkamsárásar. Báðir voru jafnframt kærðir fyrir að ráðast að lögreglu.

Annar verður jafnframt kærður fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu. Þriðji maðurinn sem varð fyrir árás þeirra var mögulega með lausar tennur eftir átökin. Mennirnir, sem báðir voru um tvítugt, voru nokkuð ölvaðir og mögulega undir áhrifum örvandi efna. Við handtöku þurfti að beita lögreglukylfum til að yfirbuga þá.

Skömmu seinna var svo tilkynnt um slagsmál og almenn læti meðal ungmenn við Stórakrika. Einnig kom fram að einhver á vettvangi hefði sést með hníf í hendi en lögregla sá aldrei hnífinn. Einhverjir voru sárir eftir minnihátar pústra og var talað við nokkurn fjölda ungmenna og forráðamenn þeirra en þarna hafði gleðskapur farið úr böndunum, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert