„Þetta er rassvasabókhald“

Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Rósa Braga

„Fjáraukalög eru ekki til að fjármagna verkefni sem stjórnvöld vanáætla. Þetta er rassvasabókhald og er ólíðandi,“ sagði Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins. Gerði hún að umfjöllunarefni sínu ákvörðun ríkisstjórnarinnar að setja 850 milljónir króna í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða til brýnnar uppbygginar á vinsælum ferðamannastöðum og 1,3 milljarða króna í vegaframkvæmdir. Þessu væri fagnað víða en alltaf hefði legið fyrir að þessa fjarmuni vantaði.

Ég skil ekki að fólk sé úti um allan bæ að hrópa húrra fyrir ríkisstjórninni, að setja peninga í vegamál og í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða eða í uppbyggingu á ferðamannastöðum. Það hefur alltaf legið fyrir að þetta þurfi að gera og er ef ég man rétt í áætlun í fjárfestingaráætluninni sem ríkisstjórnin henti út af borðinu. Mætti ég biðja um vönduð vinnubrögð og kannski að meiri hlutinn og hæstvirtur fjármálaráðherra lesi nefndarálit minni hlutans. Ég benti á þetta í nefndaráliti mínu fyrir fjárlögin 2014 og 2015. Þetta átti ekki að koma neinum á óvart. Mér finnst þetta alveg ótrúleg vinnubrögð og furðulegt að vera að tala um aga og ábyrgð í ríkisfjármálum þegar menn haga sér svona,“ sagði Brynhildur.

Frétt mbl.is: 850 milljónir í brýn verkefni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert