Geimfari í Reykjavík

Bassaleikarinn Will Carruthers les upp úr handgerðri bók sinni Book …
Bassaleikarinn Will Carruthers les upp úr handgerðri bók sinni Book of Jobs í 12Tónum föstudagskvöldið 29.maí. Mbl.is/ Eggert Jóhannesson

Will Carruthers, sem minnir helst á spjátrungslegan sjóræningja á köldum og regnvotum maídegi í Reykjavík, er fyrrum bassaleikari Spacemen 3, Spiritualized og Spectrum. Þessar þrjár bresku sveitir eiga það sameiginlegt að vera einir helstu áhrifavaldar rokksins í lok áttunda og byrjun níunda áratugarins. Það þarf ekki að gúgla lengi til að komast að því að þessar rokksveitir hafa veitt sveitum allt frá Nirvana til My Bloody Valentine mikinn innblástur undanfarna tvo áratugi. 

Carruthers, sem er einnig ljóðskáld og rithöfundur les úr bók sinni Book of Jobs kl.6 í dag, föstudag í 12Tónum, en kaflar bókarinnar fjalla um veru hans á Íslandi sem hann hefur tekið ástfóstri við. „Ég hef verið meðlimur í ýmsum hljómsveitum og hef leikið með Spacemen 3, Spiritualized, Spectrum, Brian Jonestown Massacre, Dead Skeletons svo fáein séu nefnd," útskýrir Carruthers sem bætir við að til þess að láta enda ná saman hafi hann þurft að sinna ýmiskonar vinnu samhliða tónlistarferlinum.  Á síðasta ári kviknaði hugmyndin um að safna saman sögum af þessum ólíku atvinnureynslum og skrifa bók. 

„Það hefði sennilega verið einfaldara að skrifa bara um þetta venjulega sem fólk í hljómsveitum skrifar um. En mér fannst eiturlyf, rokk og ról, sándtékk og leiðinleg tónleikaferðalög vera eitthvað sem hefur verið dekkað nú þegar í bókmenntum um þetta viðfangsefni. Hefur þú lesið bókina hans Keith Richards? Mér finnst hún frekar leiðinleg,"segir Carruthers. 

Sérkenni bókarinnar Book of Jobs er að hún er handgerð af rithöfundinum sjálfum, sem batt hana inn og myndskreytti og er hún því aðeins til í fáum eintökum.  Meðal þess sem kemur fram í bókinni er plútón verksmiðja, eldkúlur, norðurljós, risastór kúkur, kjötiðnaðarfyrirtæki, að sofa undir runna og nærast á berjum og hnetum, refur sem blikkar öðru auganu, Oasis tónleikar og draugur Billie Holiday.

Talsverður hluti söguþráðarins á sér stað á Íslandi. „Ég heimsótti Ísland fyrst árið 2012 til að æfa með hljómsveitinni Dead Skeletons," útskýrir Carruthers sem hefur sótt landið heim reglulega síðan. „Ég var eins og hver annar uppnuminn ferðamaður þegar ég kom hingað fyrst. Ég hreifst af norðurljósunum, hraunbreiðunum og undarlegri náttúrufegurð." Hann bætir við að honum líði vel á Íslandi og líki afskaplega vel við Íslendinga.  Hann hefur þó aðeins einu sinni komið fram á tónleikum hérlendis, en það var á ATP árið 2013 með hljómsveitinni Dead Skeletons. 

Carruthers mun lesa úr bók sinni Book of Jobs í 12Tónum á Skólavörðustíg í dag, föstudaginn 29.maí kl. 6 og segist mögulega taka lagið fyrir viðstadda. 

Ítarlegt viðtal við Will Carruthers er að finna á enskum vef mbl.is  Iceland Monitor og má lesa HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert