500 þúsund rúmmetrar af mold flutt af Hlíðarendareit

Samstarfið sparar fjármuni.
Samstarfið sparar fjármuni. Af vef Reykjavíkurborgar

Við framkvæmdir á Hlíðarendareit þar sem rísa munu íbúðir, atvinnuhúsnæði og íþróttamannvirki var ákveðið að efna til samstarfs um jarðvegsskipti. Það hefur að sögn Helga Geirharðssonar verkefnisstjóra gengið mjög vel og þegar sparað talsverða fjármuni. 

„Til þessa höfum við tekið á móti allt að 20.000 rúmmetrum af efni úr grunnum á höfuðborgarsvæðinu sem nýtist okkur í undirfyllingar,“ er haft eftir Helga í frétt á vef Reykjavíkurborgar, en um er að ræða sprengt grjót, fleygað efni og hreint uppgrafið efni úr húsgrunnum. Hann segir að til standi að flytja allt að 500.000 rúmmetra af góðri mold af Hlíðarendareit. „Nokkrir aðilar hafa lýst yfir áhuga að fá til sín efni í manir og fyrir gróðurþekju. Magnið er mikið og því auglýsum við eftir fleiri áhugasömum aðilum um það efni sem fæst á Hlíðarenda,“ segir Helgi.

Samstarfið sparar fjármuni bæði fyrir Hlíðarendaverkefnið sem og verktaka á höfuðborgarsvæðinu. Sparnaður samfélagsins er einnig nokkur því með þessu fyrirkomulagi dregur mjög úr álagi á vegakerfið vegna þungaflutninga. „Vegna flutninga efnis inn á svæðið má semja um flutninga á móti af mold í einhverskonar hringakstri þar sem það á við,“ segir Helgi sem hvetur áhugasama til að hafa samband og ræða möguleikana. 

Framkvæmdir á Hlíðarendareit ganga að sögn Helga vel. Búið er að ganga frá öryggisþáttum, aðgengi og umgengni um vatn auk þess sem búið er að jarðvegsskipta hluta af framkvæmdavegi sem aðskilur íþróttasvæði frá fyrirhugaðri byggð.

Í hverfinu sem mun rísa verða 600 íbúðir og verður helmingur þeirra 2ja herbergja íbúðir og rúmlega fimmtungur þriggja herbergja. Á vefnum hlidarendabyggd.is segir að markmið sé að skapa hverfi með borgarbrag, með fjölbreytni í húsagerð, stórum sameiginlegum inngörðum og iðandi mannlífi. Engin tvö eins útlítandi hús verði hlið við hlið. Allar íbúðir, líka þær minnstu, verði með með að lágmarki glugga á tvær hliðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert