Skilar umsögn um beiðni Erlu og Guðjóns

Starfshópur sem fór yfir rannsókn á Guðmundar- og Geirfinnsmáli sagði …
Starfshópur sem fór yfir rannsókn á Guðmundar- og Geirfinnsmáli sagði hafið yfir allan skynsamlegan vafa að framburður allra þeirra, sem hlutu dóm í málinu hafi verið óáreiðanlegur eða falskur. Sagði starfshópurinn veigamiklar ástæður fyrir því að málin verði tekin upp á ný. Hér má sjá nefndarmenn ásamt Ögmundi Jónassyni, þáverandi innanríkisráðherra, á blaðamannafundi þar sem niðurstöður nefndarinnar voru kynntar í mars 2013. mbl.is/Rósa Braga

Settur ríkissaksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu mun skila umsögn síðdegis í dag til endurupptökunefndar vegna tveggja endurupptökubeiðna sem bárust frá Erlu Bolladóttur og Guðjóni Skarphéðinssyni sl. haust.

Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari, fékk upphaflega frest til að umsögn um sl. áramót. Fresturinn hefur þrívegis verið framlengdur nú síðast til dagsins í dag.

Alls hafa fimm endurupptökubeiðnir borist, en hinar þrjár bárust seinna og vonast Davíð Þór til að skila umsögnum um þær innan nokkurra vikna. „Ég náði ekki að klára það en ég ætla að skila þessum tveimur í dag,“ sagði Davíð í samtali við mbl.is

Auk endurupptökubeiðna frá Erlu og Guðjóni, þá sendu aðstandendur Sævars Ciesielski og Tryggva Rúnars Leifssonar inn sambærilegar beiðnir og einnig barst endurupptökbeiðni frá Alberti Klahn Skaptasyni.

Endurupptökubeiðnirnar byggjast meðal annars á þeim rökum að með nýjum gögnum hafi verið sýnt fram á að játningar sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, sem var einn helstu grundvöllur sakfellingar, hafi verið fengnar fram með ætlaðri refsiverðri háttsemi þeirra sem komu að rannsókn málanna.

Aðspurður segist Davíð Þór ekki ætla að tjá sig um efni umsagnanna í samtali við fjölmiðla. Málið fari til efndurupptökunefndar sem taki ákvörðun um framhaldið.

Þau Erla og Guðjón, sem höfðu stöðu sakborninga í málinu, fóru fram á endurupptöku þess eftir að starfshópur í málinu komst að þeirri niðurstöðu í mars 2013 að veigamiklar ástæður væru fyrir því að taka það upp á ný.

Beiðni um endurupptöku var send Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara 4. september í fyrra og fékk embættið frest til 22. sama mánaðar til að taka afstöðu. Þegar fresturinn rann út var óskað eftir framlengingu til 1. október, þegar sá frestur var liðinn sagðist Sigríður vanhæf til að fjalla um það sökum fjölskyldutengsla við einn rannsakenda málsins. Þá var málið falið Davíð Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert