Mikilvægt að íslenskan þróist í takt við samfélagið

Sífellt fleiri Íslendingar kjósa samfélagsmiðlinn Twitter til þess að tjá …
Sífellt fleiri Íslendingar kjósa samfélagsmiðlinn Twitter til þess að tjá sig. AFP

Sífellt fleiri Íslendingar kjósa samfélagsmiðilinn Twitter til þess að tjá sig.  Twitter sker sig úr öðrum samfélagsmiðlum vegna þess að notendur geta aðeins notað 140 stafabil til þess að tjá sig og flokkast Twitter undir svokallað smáblogg.

Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir fjallar um málfar á Twitter í BA ritgerð sinni í íslensku við Háskóla Íslands. Hólmfríður segir að hún hafi haft áhuga á að skoða stöðuna á íslenskunni á Twitter í ljósi þess hversu vaxandi miðill Twitter er hér á landi. 

Framsetningin hefur áhrif

Eftir að hafa skoðað málfar Íslendinga á Twitter komst Hólmfríður að því að framsetning miðilsins hefur helst áhrif á málfarið. „Það var mjög áhugavert að skoða hvernig fólk notar kassamerkin (#) á Twitter en þau virka oft sem einhverskonar útdráttur úr því sem tíst er. Íslendingar eiga það til að skrifa orð á eftir kassamerki með greini en það er alls ekki algengt meðal erlendra tungumála. Mikið er um styttingar af ýmsu tagi og auðvitað slangri eins og á flestum samfélagsmiðlum,“ segir Hólmfríður.

Hún segir að íslenskir Twitter notendur stundi það líka að sleppa frumlagi og tala um sig í þriðju persónu. „Þá hefur fólk frumlagssætið autt en með því er það líklega að nota notandanafnið sem frumlag og talar þá um sjálft sig í þriðju persónu. Það getur vel verið að fólk geri það til að spara plássið enda má aðeins skrifa 140 slög og það hefur mikil áhrif á framsetningu tungumálsins.“ Hún segir að styttingar séu jafnframt áberandi. „Fólk er talsvert að stytta orð, t.d. með ó-orðum, þ.e. notar til dæmis orðið „Þjóbó“ í staðinn fyrir „Þjóðarbókhlaðan“.“

Hefur ekki áhyggjur af slangrinu

Við gerð ritgerðarinnar áttaði Hólmfríður sig á því að Íslendingar þurfi að passa upp á íslenskuna á samfélagsmiðlum og að hún þróist með þeim. „Eins og t.d. umræður sem verða mjög vinsælar á miðlinum flokkast undir það sem kallast trending topic á ensku, sem ég nefndi margrædd málefni á íslensku, einnig flokkast Twitter undir smáblogg eða örblogg en það er eiginlega ekkert eitt viðurkennt orð til fyrir það á íslensku. Við þurfum að passa upp á íslenskuna á samfélagsmiðlum, ég hef ekki beint áhyggjur af slangrinu inn á Twitter enda er það eðlileg þróun og oft talið hollt fyrir tungumál. En það þarf að gæta þess að við getum talað um samfélagsmiðla á íslensku, enda eru þeir orðnir stór hluti af daglegu lífi. Til þess vantar okkur orðaforða. Það er mikilvægt að íslenskan þróist í takt við samfélagið annars eigum við í hættu að missa hana og samfélagsmiðlar eru stór partur af nútíma samfélögum“

Flytur til London í haust

Að sögn Hólmfríðar tók það mestan tíma við gerð ritgerðarinnar að einfaldlega skoða Twitter og hvernig málið kemur þar fram. „Það var ekkert búið að skrifa um þetta áður á íslensku þannig þetta var smá ferli en ég sá fljótt hvað það var sem ég vildi leggja áherslu á. Það hefur verið skrifað eitthvað um þetta á ensku og ég gat notað það til stuðnings.“

Hólmfríður útskrifast seinna í mánuðinum með BA-gráðu í íslensku og fjölmiðlafræði. Í sumar ætlar hún að vinna og fara á Bræðsluna á Borgarfirði Eystra en hún vinnur hjá ÁTVR á Egilsstöðum. „Síðan ætla ég að flytja til London með kærastanum mínum í haust en hann er fara þangað í nám. Það verður vonandi eitthvað ævintýri.“

Hólmfríður Dagný segir að Íslendingar þurfi að passa upp á …
Hólmfríður Dagný segir að Íslendingar þurfi að passa upp á íslenskuna á samfélagsmiðlum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert