„Beint úr skólanum á æfingar“

Þorbjörg varð stúdent á þremur árum.
Þorbjörg varð stúdent á þremur árum. Mynd úr einkasafni

Þorbjörg Anna Sigurbjörnsdóttir er dúx Kvennaskólans í Reykjavík með einkunnina 9,41. „Ég vissi að ég ætti möguleika á því en var ekki alveg viss hvort það yrði ég eða ekki,“ sagði Þorbjörg í samtali við mbl.is, aðspurð hvort hún hafi vitað að hún fengi hæstu einkunn stúdenta. 155 stúdentar útskrifuðust frá Kvennaskólanum.

Þorbjörg, sem er dóttir Auðar Bjargar Árnadóttur og Sigurbjörns Sigurbjörnssonar, kláraði Kvennaskólann á þremur árum. „Það var frekar mikið að gera. Ég æfi líka frjálsar íþróttir þannig að ég fór beint úr skólanum á æfingar og svo heim að læra en það gekk. Þetta var svolítið mikið en mjög gaman.“ Hún æfir frjálsar með Fjölni og leggur þar aðaláherslu á 200 og 400 metra hlaup, þrístökk og langstökk.

Þorbjörg sagði ástæðu þess hversu vel henni gekk vera afar einfalda. „Ég held að það sé bara metnaður og læra. Læra jafnt og þétt, fyrir kaflapróf og gera verkefni.“ Uppáhaldsfögin hennar í skólanum voru raungreinar. „Mér fannst mjög gaman í jarðfræði, stærðfræði og efnafræði.“ 

Í sumar ætlar hún að vera á fullu í frjálsum og vinna. „Í haust ætla ég svo í Háskólann en er ekki alveg búinn að ákveða hvað ég ætla að læra. Ég er helst að hugsa um jarðfræði, efnafræði eða eitthvað tengt því.“

Framtíðin er óljós en Þorbjörg vonast til að starfa við það sem henni þykir skemmtilegt að gera. „Ég veit að það mun mjög líklega tengjast íþróttum eða náttúru og umhverfi Íslands. Það er vegna þess að ég hef mjög mikinn áhuga á þessu tvennu. Ég hef æft íþróttir frá því ég man eftir mér, fyrst á skíðum og svo hef ég æft frjálsar í nokkur ár.“ Þorbjörg hefur mjög gaman af íþróttum og útivist og finnst mjög gaman að hreyfa sig.

„Allt mitt líf hef ég verið mikið náttúrubarn og uni mér oft best úti í náttúrunni, sama hvernig viðrar. Þar er hægt að hreyfa sig, skoða umhverfið eða bara njóta útiverunnar.“ Þess vegna mun framtíð hennar líklega tengjast íþróttum og náttúru Íslands. „Hvort sem það verður eitthvað af þessu báðu eða í sitthvoru lagi, kemur í ljós.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert