Lokaritgerð nemanda tilbúningur

Nemandi skilaði ritgerðinni í janúar og fékk 8 í einkunn.
Nemandi skilaði ritgerðinni í janúar og fékk 8 í einkunn. Ómar Óskarsson

Ritgerð nýútskrifaðs viðskiptafræðings frá Háskóla Íslands virðist vera tilbúningur, viðtöl sem áttu að hafa verið tekin við vinnslu ritgerðarinnar voru aldrei tekin.

Fréttablaðið greindi fyrst frá þessu í dag.

Ritgerðin er lokuð í skemmu, sem þýðir að almenningur getur ekki skoðað hana. Í útdrætti um ritgerðina segir meðal annars "sú aðferðafræði sem notast var við var eigindleg rannsóknaraðferð, þar sem greining á fyrirliggjandi gögnum og viðtöl voru tekin." Friðrik Pálsson, hótelstjóri á Hótel Rangá, var einn þeirra sem átti að hafa komið í viðtal vegna ritgerðarinnar en ummæli eftir honum eru uppspuni. Hann vildi ekki tjá sig um málið en staðfesti í samtali við mbl.is að allt sem hefði komið fram í frétt Vísis væri rétt.
Nemandi fékk 8 í einkunn fyrir ritgerðina og hefur útskrifast sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.

Litið alvarlegum augum

„Það eina sem ég get sagt um þetta mál er að við ræðum ekki málefni einstakra nemanda. En ég get sagt að viðskiptafræðideild hefur mál til athugunnar þar sem grunur er um misferli og það mál er tekið mjög alvarlega,“ sagði Runólfur Smári Steinþórsson, deildarforseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is. „Þetta er í ferli hjá okkur og ferlið fer eftir reglum Háskóla Íslands.“

Runólfur vildi ekki tjá sig um hvort nemandinn hefði möguleika á að gera nýja ritgerð, yrði hann fundinn sekur um brot. „Málið er bara ekki á því stigi að ég vilji tjá mig um það. Við erum með þetta mál til athugunnar og leggjum mjög mikla áherslu á að það sé vandlega unnið, tökum þetta mjög alvarlega og fylgjum ákveðnu formlegu ferli og viljum ekki tala um mögulega niðurstöðu. Sannist brot þá getur það í rauninni haft mjög alvarlegar afleiðingar, prófgráðan afturkölluð.“

Niðurstaða í málinu er væntanleg fljótlega. „Ég reikna með að það verði innan tveggja til þriggja vikna. Svona mál taka tíma, það er andmælaréttur og við horfum til allra hagsmuna. Ég get ekki sagt nákvæmlega hvenær þessu verði lokið en málið er í skoðun.“

Öguð vinnubrögð

Á heimasíðu Háskóla Íslands stendur að nám í viðskiptafræði í Háskóla Íslands er þekkt fyrir gæði og hefur á sér gott orðspor. Námið er bæði fjölbreytt og framsækið og það gerir miklar kröfur til metnaðarfullra nemenda. Námið er þekkt fyrir að veita nemendum góða fræðilega undirstöðu, ýta undir skapandi hugmyndir og öguð vinnubrögð og nemendur öðlast góða innsýn í verkefni og áskoranir atvinnulífsins í gegnum kennslu og vinnu hagnýtra verkefna. Með metnaði sínum hefur Viðskiptafræðideild tryggt að menntun nemenda sem útskrifast frá deildinni nýtur trausts og hefur á sér öruggan gæðastimpil.

Runólfur Smári Steinþórsson deildarforseti viðskiptafræðideildar.
Runólfur Smári Steinþórsson deildarforseti viðskiptafræðideildar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert