Hvaða tannkrem notaði hann?

Kjálkinn sem fannst í gær.
Kjálkinn sem fannst í gær. Mynd úr einkasafni

„Þetta eru bein sem talið er að séu frá heiðni,“ sagði Birna Mjöll Atladóttir, hótelstjóri á Hótel Breiðuvík, í samtali við mbl.is. Kjálkabein úr manni fundust við hótelið í gær.

Síðan Birna flutti á Breiðuvík árið 1999 hefur hún fundið bein öðru hverju á svæðinu. „1999 kaupum ég og eiginmaður minn jörðina og sumarið 2000 komu menn hingað frá Fornleifastofu vegna tilkynningar um fund á mannabeinum, sem ég hafði ekki hugmynd um.“

Kom þá upp úr krafsinu að tilkynningin hefði komið árið 1912. „Ég hló að þeim og sagði að það væri léleg þjónusta að koma svona seint!“

Nokkrum árum síðar er Birna að hrófla við svæðinu og þá finnast mannabein. „Vinur minn, Guðmundur Þór Guðbrandsson, fann fyrsta legginn en hann er mikill grúskari og fann slatta af beinum þá.“

Beinin voru send til skoðunar í Stykkishólm og þá kemur í ljós að þetta eru líklega bein sem hafi komið upp þegar farið var að grafa fyrir húsi í Breiðuvík árið 1912. „Þá var ekkert gert en síðan þegar við förum að hrófla við þessu svæði mörgum árum síðar fara sömu beinin að koma í ljós.“

Birna hefur bara gaman að þessu. „Já, það má segja að það séu íslendingar úti um öll tún hjá okkur og það fjölgi alltaf í fjölskyldunni hérna.“

Hún dáist að tönnunum í kjálkanum sem fannst í gær. „Tennurnar í þessum kjálka eru svo fallegar og hvítar. Það er spurning hvaða tannkrem hann notaði, það væri góð auglýsing fyrir viðkomandi tannkrem.“

Tennurnar eru hvítar miðað við að hafa verið í jörðinni …
Tennurnar eru hvítar miðað við að hafa verið í jörðinni í fjöldamörg ár. Mynd úr einkasafni
Beinasafnið.
Beinasafnið. Mynd úr einkasafni
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert