Þakkar Íslendingum stuðninginn

Kent Page, starfsmaður UNICEF sem fór samstundis til Nepal eftir jarðskjálftann mikla í lok apríl, þakkar Íslendingum fyrir stuðninginn við UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. „Ég vil þakka fólki á Íslandi fyrir stuðninginn við UNICEF, framlög ykkar skipta miklu máli fyrir börnin hér sem virkilega þurfa á þeim að halda,“ segir Page í meðfylgjandi myndskeiði.

Page er staddur á einu af þeim fjölmörgu barnvænu svæðum sem UNICEF hefur opnað á skjálftasvæðinu. Þar geta börn komið saman, leikið sér og fengið að vera börn. Að auki fá þau sálrænan stuðning.

Sigríður Víðis Jónsdóttir, kynningarstjóri og upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi, segir í samtali við mbl.is að söfnuninni hafi verið tekið mjög vel hér á landi. „Það er fólk úti um allt land búið að styrkja, ungir og aldnir. Ýmsir viðburðir hafa verið tengdir þessu og mikið hefur safnast.“ 

Þrátt fyrir að söfnunin hafi gengið vel er ennþá mikið verk framundan í Nepal. „Neyðin úti er rosalega mikil ennþá. Við erum enn að veita lífsnauðsynlega hjálp og uppbyggingarstarfið er samhliða í gangi og það er mikil uppbygging framundan. Þetta verður ekkert búið á morgun eða hinn,“ sagði Sigríður.

UNICEF á Íslandi fór strax af stað með neyðarsöfnun eftir skjálftann 25. apríl og söfnunin stendur enn yfir. Hún hefur gengið afar vel og alls hafa nú safnast yfir 18 milljónir króna. Framlögin fara í að tryggja börnum vatn og hreinlætisaðstöðu, útvega lyf og neyðarskýli og sinna barnavernd. Þau fara einnig meðal annars í að koma börnum aftur í skóla og opna barnvæn svæði.

Hægt er að leggja söfnuninni lið hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert