Allt að 7 kílómetra röð í Hvalfjarðargöngin

Röðin við Hvalfjarðargöngin var allt að 7 kílómetra löng í …
Röðin við Hvalfjarðargöngin var allt að 7 kílómetra löng í kvöld. Mynd/Árni Grétar

Núna rétt fyrir hálf átta í kvöld myndaðist allt að 7 kílómetra röð norðan við Hvalfjarðargöngin, en hún náði að bænum Galtalæk. Að sögn blaðamanns mbl.is sem er á staðnum hefur hann setið fastur í röðinni í um hálftíma, en bílstjórar voru byrjaðir að snúa við til að keyra fjörðinn í stað þess að bíða. Eftir því sem mbl.is kemst næst er nú röðin farin að minnka og röðin að styttast.

Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Spalar, sagði að sér hefði komið þessi röð á óvart, en hann hafði sjálfur verið á ferðinni um göngin rétt fyrir sjö í kvöld. Sagði hann að þá hefði röðin aðeins náð upp að hringtorgi. Það væru aftur á móti um 2.000 bílar að keyra þarna í gegn á hverri klukkustund og hingað til hefði umferðin gengið mjög vel í dag. 

Uppfært 19:58: Samkvæmt upplýsingum mbl.is þurfti að hægja á umferð í gegnum göngin þar sem bílaröðin á Vesturlandsveginum sunnan megin við göngin var stopp og vildu starfsmenn Spalar ekki að bílar þyrftu að stöðva og bíða niðri í göngunum. Var göngunum því lokað tímabundið meðan leystist úr umferðinni sunnan megin.

Samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar hefur umferð við Blikdalsá, rétt sunnan við göngin, frá miðnætti talið 10.192 bíla, en á síðustu 10 mínútum hafa 204 bílar keyrt þar fram hjá. Það gerir rétt rúmlega 20 bíla á hverri mínútu, eða þrjár sekúndur á milli bíla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert