Samið um hringtengingu ljósleiðara á Vestfjörðum

Jón R. Kristjánsson framkvæmdastjóri Mílu, Ólöf Nordal Innanríkisráðherra og Arnbjörg …
Jón R. Kristjánsson framkvæmdastjóri Mílu, Ólöf Nordal Innanríkisráðherra og Arnbjörg Sveinsdóttir formaður stjórnar fjarskiptasjóðs. Myndin er tekin við undirritun samningsins.

Míla og fjarskiptasjóður, fyrir hönd innanríkisráðuneytisins hafa undirritað samning um fyrri hluta hringtengingar ljósleiðara um Vestfirði. Sú leið sem ljósleiðarinn verður lagður í þessum verkhluta er frá Stað í Hrútafirði til Hólmavíkur og er leiðin um 114 kílómetra löng. Seinni verkhluti verður á milli Nauteyrar í botni Ísafjarðardjúps og Súðavíkur, en sá hluti verður boðinn út síðar.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra, Arnbjörg Sveindóttir formaður stjórnar fjarskiptasjóðs og Jón R. Kristjánsson framkvæmdastjóri Mílu undirrituðu samninginn. 

Um er að ræða ljósleiðarastofnstreng með möguleika á ljósleiðaraheimtaugum á leið strengsins, en heimtaugar eru þó ekki hluti þessa samnings. Undirbúningur er hafinn hjá Mílu og verður Orkubú Vestfjarða samstarfsaðili Mílu í verkefninu og mun Orkubúið samnýta jarðvinnuframkvæmdir fyrir lagningu rafstrengs. Vinna mun hefjast nú í júlí og er stefnt að því að klára verkið fyrir lok þessa árs, segir í fréttatilkynningu.

Í byrjun árs ákvað Fjarskiptasjóður að styrkja framkvæmdir vegna lagningar ljósleiðara á Vestfjörðum með það að meginmarkmiði að efla fjarskiptaöryggi á svæðinu. Opið útboð vegna verkefnisins fór fram hjá Ríkiskaupum fyrr á þessu ári og var opnun tilboða í lok apríl. Þrír aðilar sendu inn tilboð og varð tilboð Mílu fyrir valinu.

Míla ehf. byggir á yfir 100 ára reynslu af lagningur fjarskiptakerfa. Fyrirtækið á og rekur víðtækt koparkerfi, ljósleiðara- og örbylgjukerfi sem nær til allra heimila, fyrirtækja og stofnana á landinu og er Míla undirstaða fjarskiptaþjónustu um allt land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert