Skotgengur um sveitir Skotlands

Mikið er um dýrðir þegar leiðin West Highland Way er …
Mikið er um dýrðir þegar leiðin West Highland Way er gengin. Gangan tekur sjö daga og er 153 km. Ljósmyndir/Skotganga

Hjónin Ingibjörg Geirsdóttir og Snorri Guðmundsson fluttu til Skotlands fyrir tólf árum og eiga nú og reka ferðaþjónustufyrirtækið Skotgöngu (Scot Walks Ltd.) sem sérhæfir sig í fjölbreyttum gönguferðum fyrir Íslendinga. Vinsælasta leiðin er sjö daga ganga um West Highland Way sem liggur um fallegustu svæði landsins. Bæði er hægt að ganga með og án fylgdar hjónanna.

Þetta var allt tilviljunum háð,“ segir Ingibjörg Geirsdóttir sem ásamt eiginmanni sínum, Snorra Guðmundssyni, rekur ferðaþjónustufyrirtækið Skotgöngu í Skotlandi, sem sérhæfir sig í skipulögðum gönguferðum fyrir Íslendinga.

„Þetta byrjaði þannig að ég fór að fara með vinkonur mínar í gönguferðir um svæðið eftir að við fluttum til Skotlands. Á meðan karlarnir fóru í golf þá skelltu golfekkjurnar sér í göngu,“ segir Inga létt í bragði en fyrirtæki þeirra hjóna blómstrar sem aldrei fyrr nú tæpum tíu árum síðar.

Bjóða þau bæði upp á hópferðir þar sem þau skiptast á að sjá um fararstjórn og ferðir þar sem hóparnir ganga leiðirnar á eigin vegum.

„Það er leikur einn að fara þetta sjálfur. Við sjáum þá um að skipuleggja gistingar og farangursflutninga á leiðinni. Leiðin er vel merkt og fær hópurinn kort og allar handhægar upplýsingar áður en lagt er af stað.“

Fallegasta svæði landsins

„Aðalleiðin sem við förum kallast West Highland Way en hún þykir langfallegust og skemmtilegust,“ segir Inga en leiðin er einir 153 kílómetrar og tekur það sjö daga að ganga hana á enda. Liggur hún á milli Milngavie, úthverfis Glasgow, og Fort William.

Um 100 þúsund manns ganga hana árlega en hún liggur í gegnum eitt fallegasta svæði landsins.

„Farið er meðfram vötnum, tignarlegum fjöllum, um skóga, dali og heiðar,“ segir Inga en á meðan gengið er fer hún einnig yfir sögu svæðisins.

„Kvöldið áður en haldið er af stað í gönguna þá held ég partý heima hjá mér fyrir gestina,“ segir Inga kát. Þá fá allir góðan mat og drykk í boði hjónanna. „Það hristast allir vel saman og eru verulega vel stemmdir þegar lagt er af stað næsta dag.“

Yfirleitt eru um tíu til tuttugu manns í hverri ferð og segir Inga að hóparnir tengist ótrúlega vel í ferðunum. „Það myndast öðruvísi stemning þegar fólk er svona saman í útlöndum. Samkenndin verður öflug og allir hugsa hver um annan.“

Aldrei fellt niður

Inga hefur sannarlega yndi af ferðunum sem þau hjónin bjóða upp á hjá Skotgöngu en það sést best á því að hún hefur aldrei fellt niður ferð, óháð því hve margir hafa verið skráðir.

„Þegar kreppan kom þá var búið að uppbóka allt sumarið en svo féll það allt eins og spilaborg. Þá var bara að gefast ekki upp og halda áfram,“ segir Inga sem fór í tvær sjö daga göngur, sína með hvorum hjónum, það sumar. „Ég felli aldrei niður ferðir. Þó ég þurfi að borga með sjálfri mér þá fer ég samt, því það er ekki það sem skiptir máli,“ segir Inga.

Hjónin dóu ekki ráðalaus þegar umsvifin minnkuðu í kringum efnahagshrunið heldur beindu sjónum sínum að Skandinavíu. „Það reyndist mjög vinsælt þar,“ en þau vinna með ferðaskrifstofum á Norðurlöndunum til að komast í samband við væntanlega ferðalanga.

Nýlega fóru hjónin að bjóða upp á ferðir, í samvinnu við Úrval Útsýn, um slóðir landnámskonunnar Auðar djúpúðgu. Farið er um Suðureyjar og Hálönd Skotlands þar sem tengsl svæðanna við Ísland eru skoðuð. Eyjarnar Mull, Iona, Skye, Eliean Donan, Harris & Lewis eru heimsóttar.

„Þar dýpkum við þekkingu okkar á svæðinu og sköpum létta, skemmtilega stemningu og njótum annálaðrar gestrisni Skotanna.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert