Gengur stolt út um dyrnar

Kristín Ingólfsdóttir, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands.
Kristín Ingólfsdóttir, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands.

„Það eru auðvitað blendnar tilfinningar á svona degi. Þetta er búið að vera líf mitt í tíu ár en ég get ekki gengið öðruvísi en stolt út um dyrnar,“ sagði Kristín Ingólfsdóttir sem lét af embætti rektors Háskóla Íslands í dag.

Hún afhenti Jóni Atla Benediktssyni keðjuna sem er táknmynd embættisins. „Það er mikill heiður að afhenda Jóni keðjuna og ég veit að hann verður mjög farsæll. Hann þekkir skólann vel og verður gríðarlega öflugur leiðtogi skólans.“

„Það eru forréttindi að fá að starfa með því öfluga fólki sem starfar við skólann. Starfsfólkið hefur sýnt ótrúlegan dug í gegnum mótlæti og hefur alltaf haft að leiðarljósi kjarnastarfsemi skólans, kennslu og vísindi. Ég er rosalega stolt af því.“

„Ég er líka ánægð með þátt stúdenta í mótun skólans. Það er alveg einstakt hvað stúdentar hafa staðið eins og klettur með skólanum og komið með uppbyggilegum hætti með breytingartillögur sem hafa leitt til farsælla breytinga. Samstarfið við þá var alveg einstakt.“

Miklar breytingar eru framundan hjá Kristínu sem er nú á leið erlendist ásamt eiginmanni sínum Einari Sigurðssyni. Dagurinn í dag var stór dagur hjá þeim báðum þar sem Einar lét einnig af störfum sem forstjóri MS auk þess sem hann fagnar afmæli sínu.

„Þessu öllu saman verður fagnað í dag og eflaust næstu vikur,“ segir Kristín glöð að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert