Taka „upptrekkta stjórnmálamanninn“ úr sambandi

Helgi Hjörvar.
Helgi Hjörvar. mbl.is/Golli

Helgi Hjörvar segir Íslendinga hafa fengið miklar vöggugjafir, verðmæti og náttúruperlur á eldhúsdagsumræðum í kvöld. Stjórnmálin væru hins vegar illa stödd. „Mörg mál á vetrinum sína hvað stjórnmálastarfið er orðið lélegt,“ sagði Helgi Hjörvar, og sagði mörg málanna valda fólki í öllum flokkum og utan flokka aulahrolli.

Hann sagði einnig að taka þyrfti úr sambandi „upptrekta stjórnmálamanninn,“ sem allur heimurinn hefði gefist upp á. „Við þurfum að varast að verða þessi stjórnmálamaður, því hann á ekkert erindi við nútímann.“ Þessi upptrekkti stjórnmálamaður, sagði Helgi Hjörvar, að væri maðurinn sem stæði m.a. í pontu Alþingis og þakkaði sér fyrir allt það sem vel gengur og reyndi með því að undirstrika eigið mikilvægi.

Hann sagði stjórnarskrána vissulega ekki gert þjóðina gjaldþrota, heldur stjórnmálastarfið sem starfar undir henni. Þess vegna þurfi að breyta henni.

Umfram allt, sagði Helgi, þurfum við að tryggja þá festu og þann aga í peningamálum eins og gerist á hinum Norðurlöndunum. Hann gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að halda upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna með því að afnema verkfallsrétt stórrar kvennastéttar, og vísaði þar til laga á verkfall hjúkrunarfræðinga.

„Við skulum ekki láta freka karlinn eyðileggja stjórnmálin fyrir okkur,“ sagði Helgi Hjörvar. „Stærsta tækifærið er nýr dagur. Látum hann renna upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert