Engum ætti að leiðast um helgina

Frá írskum dögum á Akranesi.
Frá írskum dögum á Akranesi. mbl.is/Júlíus

Oft er talað um að fyrsta helgin í júlí sé mesta ferðahelgi sumarsins fyrir utan verslunarmannahelgina. Það er alls ekki ólíklegt að margir muni leggja í ferðalag á næstu dögum en um helgina fara fram fjölmargar bæjarhátíðir og viðburðir.

Spáð er góðu veðri um allt land á laugardaginn og gæti hiti farið upp í átján gráður á Suðurlandi. Jafnframt er góðu veðri spáð fyrir norðan en þar má gera ráð fyrir 15 til 16 gráða hita og nokkuð björtu veðri.

Bjartast verður þó á Vesturlandi og er þar spáð um 14 stiga hita. Jafnframt er spáð góðu veðri á Austurlandi en samkvæmt spá Veðurstofunnar verður þar 16 gráða hiti og nokkuð bjart veður á laugardaginn.

Blautt verður hins vegar á Austurlandi á sunnudaginn samkvæmt spám en þurrt og hlýtt annars staðar á landinu.

Iggy Pop mætir á Ásbrú

Nóg er að gerast á landsbyggðinni um helgina en einnig á höfuðborgarsvæðinu. Til að mynda er langur laugardagur á Laugavegi og fjölmargir viðburðir tengdir því í miðbænum. Jafnframt verður tónlistarhátíðin All Tomorrow Parties haldin við Ásbrú í Reykjanesbæ um helgina og hefst hátíðin í dag. Stærstu nöfnin sem koma fram á hátíðinni í ár eru Iggy Popp, Belle and Sebastian og Godspeed! You Black Emperor. Hægt er að nálgast miða hér

En fjörið er ekki aðeins á suðvesturhorninu.

Á Vopnafirði fer fram bæjarhátíðin Vopnaskak sem haldin er á hverju ári. Í ár verða endurvaktir viðburðir sem nutu gríðarlegra vinsælda á sínum tíma. Þar ber helst að nefna hagyrðingakvöld og Hofsball þar sem Buff leikur fyrir dansi. Upplýsingar um hátíðina má sjá hér.

Á Akureyri verður nóg að gerast en í gær hófst þar N1-mótið í knatt­spyrnu og stend­ur það fram á laugardag. Bú­ist er við um 1.800 kepp­end­um og 180 liðum til þátt­töku. Auk kepp­enda af öllu land­inu koma þrjú er­lend lið til þátt­töku á mót­inu, eitt frá Svíþjóð og tvö frá Fær­eyj­um.

Fjölskylduhátíðin Írskir dagar á Akranesi hefst á föstudaginn með fjölbreyttri skemmtun fyrir alla. M.a. verður boðið upp á íþróttir, útimarkað, strandlíf, dorgveiði, sandkastalakeppni og síðast en ekki síst keppnina um rauðhærðasta Íslendinginn. Upplýsingar um hátíðina má sjá hér. 

Þjóðlög og Goslok

Í gær hófst Þjóðlagahátíðin á Siglufirði sem er alhliða tónlistarhátíð með rætur í þjóðlagaarfinum. Þjóðlagahátíðin stendur frá miðvikudegi til sunnudags og í ár er yfirskrift hennar Fagurt syngur svanurinn. Að þessu sinni verður ólíkum hópum boðið að koma að halda tónleika á þjóðlagahátíðinni sem menn eru ekki vanir að sjá á slíkum hátíðum. Lúðrasveit mun halda tónleika og ganga um götur Siglufjarðar meðan á hátíðinni stendur og lífga upp á bæjarlífið, von er á erlendum gestum sem munu setja sterkan svip á hátíðina, m.a. frá Finnlandi og Eistlandi svo einhver lönd séu nefnd. Hér má sjá umfjöllun Morgunblaðsins um hátíðina og heimasíðu hennar, folkmusik.is

Núna um helgina fer jafnframt fram hin margrómaða Goslokahátíð í Vestmannaeyjum en þá er endalokum eldgossins í Heimaey fagnað. Í ár eru 42 ár síðan gosinu lauk, 3. júlí 1973. Dagskrá hátíðarinnar er fjölbreytt og má þar nefna Sirkus Íslands sem verður með sýningar á malarvellinum, KK-Band sem kemur fram á balli í Höllinni ásamt Eyþóri Gunnarssyni og Bjartmari og bergrisunum, sjö tinda göngu frá Stórhöfða og göngumessu frá Landakirkju að gíg Eldfells og að Stafakirkju.

Dagskrána í heild má sjá hér.

Bjössi greifi tryllir lýðinn

Á bæjarhátíðinni Ólafsvíkurvöku á Ólafsvík sem fram fer um helgina hittast bæjarbúar á morgun í sínum hverfum og skreyta. Best skreyttu hverfin fá verðlaun.

Á föstudaginn hefst síðan fjölbreytt dagskrá sem inniheldur m.a. dorgveiðikeppni, tónleika með Sætabrauðsdrengjunum og bryggjuball með Bjössa greifa.

Dagskrána í heild má sjá hér.

Bátadagar á Breiðafirði hefjast á föstudaginn. Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum (FÁBBR), í samvinnu við Báta- og hlunnindasýninguna á Reykhólum (BogH), stendur fyrir bátahátíð súðbyrtra trébáta á Breiðafirði í áttunda sinn. Eru eigendur trébáta hvattir til að mæta með báta sína.

Safnast verður saman á Reykhólum en lagt af stað í 6-8 klukkustunda siglingu um Breiðafjörðinn næsta morgun. Gert er ráð fyrir að leggja af stað um klukkan tíu frá Stað.

Upplýsingar um Bátadaga má sjá hér.

Frá ATP 2013
Frá ATP 2013
Brúðubíllinn sló í gegn á Ólafsvíkurvöku í fyrra.
Brúðubíllinn sló í gegn á Ólafsvíkurvöku í fyrra. mbl.is/Alfons
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert