Ylströndin flaggar Bláfánanum

Bláfáninn.
Bláfáninn.

Bláfáninn var dreginn að húni við Ylströndina í Nauthólsvík í dag, í tíunda sinn. Fáninn er árleg umhverfisviðurkenning, en það er Landvernd sem afhendir fánann þeim sem uppfylla sett skilyrði.

Samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg flagga yfir 4.000 baðstrendur og smábátahafnir í 49 löndum Bláfánanum. Þar af eru níu staðir á Íslandi, þeirra á meðal Ylströndin, Bláa lónið og Langisandur á Akranesi.

„Hafdís Hrund Gísladóttir, fulltrúi frá Landvernd, sagði fánann tákn um gæði í margvíslegum skilningi og hver sá sem fær að flagga honum getur verið stoltur af vinnu sinni að umhverfismálum. Hún bætti því við að það er sæmandi fiskveiðiþjóð og ferðamannalandi að gera kröfur um góða umhverfisstjórnun í höfnum landsins og Bláfáninn er öflugt tæki til að stuðla að því.

Gestir Ylstrandarinnar taka einnig þátt í því að vernda Bláfánasvæði og umhverfi þess með því að sýna aðgát í umgengni við dýr og plöntur, ganga snyrtilega um, flokka úrgang og hvetja aðra til að vernda svæðið og ganga snyrtilega um.

Ekki er nóg að uppfylla skilyrði fyrir Bláfána einu sinni því árlega er vandlega farið yfir það hvort ströndin stenst þær kröfur sem til þarf. Það er því metnaður Ylstrandarinnar að þar takist að blakta fánanum árlega. Nú er um að gera að skella sér á ströndina, sýna gott fordæmi i umgengni og fagna því að sjá Bláfánann, sönnun þess að Ylströndin hugar að umhverfinu,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert