„Ég þurfti að snarhemla“

Vagninn náði yfir þveran veginn á tímabili.
Vagninn náði yfir þveran veginn á tímabili. mbl.is

Mynd af strætisvagni að snúa við á miðjum veginum út á Kjalarnes í dag hefur vakið mikla athygli. Bílstjóri bifreiðar sem ók á eftir strætisvagninum segir aðstæður hafa verið afar hættulegar. 

„Vagninn stansaði allt í einu. Ég sá að bílar voru að forða sér undan vagninum og taka framúr honum án þess að sjá mikið framfyrir sig. Bílar komu auðvitað á móti, þannig að óvissa skapaðist og hik varð til að auka hættuna enn frekar,“ segir bílstjórinn. 

Og það sem meira er, vagninn byrjaði að bakka! Það eitt kom róti á okkur fyrir aftan og fleiri forðuðu sér með framúrakstri. Bílar sem komu á móti björgðu þeim sem framúr fóru. Þeir gátu ekki annað. Svo hófst æfingin. Vagninn einfaldlega ók yfir á hina akgreinina fyrir bílana sem komu á móti.

Framkvæmdastjóri Strætó bs., Jóhannes S. Rúnarsson, sagði í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að hann gerði ráð fyrir að brýn nauðsyn hefði rekið bílstjóra vagnsins til að snúa við og að hann hafi þá farið afar varlega. 

„Ég þurfti að snarhemla eins og aðrir. Setti viðvörunarljósin á svo ég fengi ekki bílaröðina aftan á mig,“ segir bílstjórinn sem gefur lítið fyrir svör Jóhannesar sem tók raunar fram að hann hafði engar upplýsingar um ástæður viðsnúningsins eða aðstæður á veginum.

Bílstjórinn segist hafa haft nægan tíma á meðan að vagnstjórinn sneri við og að hann hafi torgað rækjusamloku, appelsíni og litlu Prins póló stykki á meðan á snúningnum stóð en svo hafi honum tekið að leiðast. Í allt telur hann snúninginn hafa tekið um 20 mínútur. 

„Uppákoman var mögnuð upplifun. Óraunveruleg. Hvernig vagnstjóranum datt þetta í hug þarna verður ráðgáta. Vonandi fyrir vagnstjórann einnig,“ segir hann.

„Þótt allt vont hafi gerst og maðurinn þurft að snúa við þá var þetta ekki staðurinn.  Ekki rétti dagurinn. Ekki rétti tíminn. Ekki rétta ökutækið.“

Frétt mbl.is

Sneri við á miðjum veginum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert