„Kemur mér spánskt fyrir sjónir“

Ljósmynd/Into the Glacier

„Ég í raun stórefast um að það séu einhverjir að hætta við. Það er hugsanlega þessi eini aðili. Ég hef ekki heyrt þetta áður,“ segir Sigurður Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri Into The Glacier en í Fréttablaðinu í dag segir að forsvarsmenn ferðaþjónustufyrirtækja séu að hætta við að senda fólk í ísgöngin á Langjökli.

Ástæðan er sögð vera að upplifun ferðamanna sé ekki eins og auglýst hefur verið. 

„Ég hef ekki heyrt þetta áður og þetta kemur mér mjög spánskt fyrir sjónir. Við gerum kannanir á meðal gesta og erum í miklu sambandi við ferðaþjónustuaðila. Það hafa greinilega einhverjir vaðið í fjölmiðla en það hafa engir rætt þetta við okkur.“

„Það er í fullyrt í viðtali í fréttinni að allt sé á floti í göngunum. Það er einfaldlega rangt. Það drýpur vatn niður fyrstu 50 metrana og vatnið að sjálfsögðu leitar niður. Það er lítil tjörn innst inni í göngunum sem hefur eitthvað lítið verið að stækka en við áttum alltaf von á því og erum að vinna við að tækla það. En að segja að allt sé á floti er einfaldlega ekki rétt,“ segir Sigurður. 

„Síðan er verið að tala um að það sé skítugt fyrir utan. Það er auðvitað sumarbráðnun í gangi og þá fer drullan ekki neitt heldur safnast saman. Sérstaklega þar sem stórir trukkar koma akandi upp Kaldadal með ferðamenn og stoppa fyrir utan. Það sem við höfum verið að gera er að ýta snjónum til með snjóbíl. Þetta er ekkert vandamál, heldur eðlilegur hlutur,“ bætir Sigurður við.

Fólk á bol og lakkskóm gæti blotnað

Með frétt Fréttablaðsins var mynd af munnanum á göngunum þar sem má sjá spýtur notaðar til þess að móta göngin. „Við erum yfir veturinn með 40 metra spýtnagöng sem við tökum niður um leið og þau eru orðin traust. Þegar þessi mynd var tekin voru aðeins þrír metrar af spýtnagöngum eftir þar sem göngin voru orðin traust. Við vorum að fara að taka þetta niður og nú er allt timbrið farið. Það er byrjun sumars og það verður að vera komin ákveðin þykkt í snjóinn til þess að þetta sé traust,“ segir Sigurður og bætir við að um ungt fyrirtæki sé að ræða.

„Við höfum verið að gera óformlegar kannanir og spyrjum gesti okkar um upplifun þeirra. Við erum ungt fyrirtæki og við viljum hlusta og læra til þess að geta brugðist við. Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð. Það má svo bæta við að það er best að vera klæddur í samræmi við aðstæður. Ef þú kemur í bol og lakkskóm þá munt þú sennilega blotna. Þetta er hátt uppi á jökli og umhverfið í samræmi við það.“ segir Sigurður en fyrsta heimsóknin í göngin eftir opnun var þann 1. maí síðastliðinn. Í júní heimsóttu 3.300 ferðamenn göngin. 

Mbl.is ræddi við nokkur ferðaþjónustufyrirtæki sem selja ferðir í íshellinn. Kári Björnsson framkvæmdastjóri hjá Extreme Iceland segir gesti sína mjög ánægða með hellinn. „Við erum ekki í þeim hugleiðingum að hætta við ferðir. Ég er mjög ósammála fréttinni því kúnnarnir mínir eru mjög ánægðir og hún kom mér því á óvart. Það eru auðvitað einhverjir hnökrar en það gengur betur með hverjum deginum. Það lekur að sjálfsögðu eitthvað vatn því þetta er jökull en þetta er æðislegur staður og verður bara betri og betri. Það hefur enginn kvartað og við höfum örugglega farið með hundruð manna upp þangað.“

Bjarni Geir Lúðvíksson hjá Reykjanes Tours tekur í svipaðan streng. 

„Það eru allir ánægðir hjá mér. Ég að vísu hef ekki farið þangað sjálfur þar sem ég sel bara ferðirnar en þau skilaboð sem ég hef fengið frá kúnnum eru bara jákvæð og allir ánægðir.“

Þórir Garðarsson hjá Iceland Excursions/Grey Line, sem er með daglegar ferðir að ísjöklinum, segir upplilfun þeirra viðskiptavina vera góða. „Ég skil ekkert í þessari frétt. Við hjá Gray Line höfum farið með mikinn fjölda ferðamanna þarna síðan í júní og það var almenn ánægja hjá þeim með ferðina,“ segir Þórir.

Sigurður Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri Into The Glacier.
Sigurður Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri Into The Glacier.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert