„Persónuleg vonbrigði“

Einar K. Guðfinsson, forseti Alþingis.
Einar K. Guðfinsson, forseti Alþingis. mbl.is/Ómar

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis segir að þingstörfin hafi fjarri því gengið fyrir sig eins og hann hefði kosið. „Starfsáætlun fór úr skorðum og þinghaldið hefur dregist til mikilla muna. Ég get ekki hér og nú leynt vonbrigðum mínum með það, persónulegum vonbrigðum, enda hef ég lagt áherslu á að starfsáætlun standist og það ekki að ástæðulausu.“

Einar sagði í ræðu á Alþingi í dag að það hefði verið rauður þráður í máli flestra ræðumanna í eldhúsdagsumræðunum í fyrrakvöld, jafnt stjórnarliða og stjórnarandstæðinga, að endurskoða þyrfti vinnubrögðin á Alþingi.

„Þetta var einkar eftirtektarvert. Nú vil ég taka þingmenn á orðinu. Það er mikilvægt að bregðast við og vinna rösklega og markvisst að því að gera breytingar, sem ég veit að þingmenn í hjarta sínu óska eftir. Verði allir alþingismenn og ráðherrar tilbúnir að leggja sitt af mörkum til þeirrar endurskoðunar hef ég trú á því að góðir hlutir gerist. En þá dugar ekki að skyggnast bara eftir flísinni frægu í auga náungans. Við þurfum öll, undanbragðalaust, að líta okkur nær,“ sagði hann.

Máli skiptir hvernig menn umgangast leikreglurnar

Hann leggur á það áherslu að ekki eingöngu reglurnar, þingsköpin, þurfi endurbóta við heldur ekki síður það hvernig þingmenn umgangist leikreglurnar og hvers konar stjórnmálamenningu þeir vilji hafa á Alþingi.

„Að mínu mati er það sjálfstætt og óumflýjanlegt verkefni að breyta þeirri stjórnmálamenningu sem hvílir eins og farg á þinginu. Og það stendur engum nær en okkur sjálfum að ráða á þessu bót því að við vitum best hvar eldurinn brennur á okkur. Ég leyfi mér því að varpa fram þeirri hugmynd að forystumenn flokka, eða fulltrúar þeirra, setjist niður og fari yfir þennan þátt sérstaklega í því skyni að sammælast um leiðir til að vinna hér bót á.

Mikið er í húfi að Alþingi öðlist þann trausta sess í huga þjóðarinnar sem það verðskuldar og er umfram allt svo þýðingarmikill í þágu þjóðarhags. Alþingi er hvorki meira né minna en æðsta stofnun þjóðarinnar. Þess vegna má kalla það æðstu skyldu okkar sem hér störfum í umboði fólksins í landinu að stuðla að aukinni virðingu löggjafarsamkomunnar. Í því sambandi er að mörgu að hyggja,“ sagði Einar.

„Orðin úr ræðustól komi blóðinu á hreyfingu“

Hann vék máli sínu einnig að orðræðu stjórnmálamanna er hann sagði: „Það er ekkert að því að menn taki stórt upp í sig í ræðustólnum, tali svo undan svíði, orðin úr ræðustólnum komi blóðinu á hreyfingu, menn fari með himinskautum og kalli fram í af hnyttni þegar það á við. En slíkt á ekkert skylt við fúkyrðaflaum, uppnefni, svigurmæli og meiðandi ummæli.“

Einar tók þó fram að ekki mætti gleyma því að mjög margt í störfum Alþingis væri til mikillar fyrirmyndar og vekti jafnvel undrun og ánægju þeirra sem fyrir utan stæðu en ættu þess kost að kynnast vinnubrögðum Alþingis.

„Í þingnefndum er umræðan jafnan hófstillt, málefnaleg og sanngjörn og þar er unnið af vandvirkni. Alþingi er líka sjálfstæðara í störfum sínum en mörg önnur þjóðþing þar sem framkvæmdarvaldið er miklu áhrifameira við lagasetninguna en gildir hér. Alþingi hefur því þrátt fyrir allt sterka stöðu í íslensku stjórnkerfi og í íslensku stjórnmálalífi og þannig á það að vera. Þetta er öfundsverð staða, sem við hljótum að vilja varðveita og efla, líkt og okkar góði félagi og vinur Pétur Blöndal var óþreytandi að minna okkur á allt til hinstu stundar. Þessari arfleifð hins merka og sjálfstæða þingmanns skulum við halda á lofti,“ sagði Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert