Stöðvuðu hópslagsmál unglinga

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Nokkuð var um að lögregla á höfuðborgarsvæðinu þyrfti að hafa afskipti af fólki vegna ölvunar eða fíkniefnaneyslu í nótt og eins var nokkuð um afskipti af ungu fólki.

Um klukkan 22 var tilkynnt um hópslagsmál unglinga við Holtaveg í austurbæ Reykjavíkur og segir í dagbók lögreglu að málið hafi verið „afgreitt með aðkomu/tilkynningu til foreldra“. Um svipað leyti hafði lögreglan í Hafnarfirði afskipti af ungu fólki í Helligerði vegna neyslu fíkniefna og á öðrum tímanum í nótt hafði lögregla í miðbænum afskipti af þremur 17 ára drengjum. Voru þeir í óða önn við að ræna bíla við Þorragötu þegar lögreglu bar að garði og voru með reiðhjól sem þeir höfðu tekið. Hjólunum náðist að skila og var málið afgreitt með aðkomu foreldra.

Um klukkan 20 í gærkvöldi var ölvaður maður handtekinn í heimahúsi í austurbæ Reykjavíkur grunaður um líkamsárás og heimilisofbeldi. Maðurinn var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls. Um klukkutíma síðar var ölvuð eldri kona handtekin í íbúðablokk í Grafarholti. Var hún færð á lögreglustöð og vistuð í fangageymslu sökum ástands. Á svipuðum tíma handtók lögregla í austurbæ par í heimahúsi sem grunað er um vörslu og sölu fíkniefna og hefur parið verið vistað í fangageymslu.

Um hálf fimm var tilkynnt um innbrot í Apótek í Salahverfi en ekki koma frekari upplýsingar um málið fram í dagbók lögreglu.

Ók réttindalaus undir áhrifum

Um klukkan 20 var bifreið stöðvuð í Breiðholti þar sem ökumaðurinn var grunaður um akstur undir áhrifum lyfja. Einnig lék grunur á að hann hafi ekið utan í aðra bifreið án þess að tilkynna óhappið og farið af vettvangi. Laust eftir miðnætti var bifreið stöðvuð á Vesturlandsvegi þar sem grunur lék á ölvun við akstur og var viðkomandi sviptur ökuréttindum. Skömmu fyrir fjögur í nótt var bifreið stöðvuð á Hverfisgötu þar sem ökumaður reyndist án ökuréttinda. Í ljós kom að viðkomandi hafði aldrei öðlast slík réttindi og var hann að auki grunaður um vörslu fíkniefna. Á fimmta tímanum var svo bifreið stöðvuð í Hafnarfirði. Ökumaður var grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna og ók hann að auki án ökuréttinda og mun um ítrekað brot af hálfu viðkomandi að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert