Boot Camp flytur í Sporthúsið

Þrjú ár eru síðan Boot Camp flutti í Elliðaárdalinn. Sá …
Þrjú ár eru síðan Boot Camp flutti í Elliðaárdalinn. Sá rekstur reyndist dýr. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Boot Camp og CrossFit Stöðin flytja æfingaaðstöðu sína í húsnæði Sporthússins í Kópavogi í byrjun ágústmánaðar. Í fréttatilkynningu kemur fram að aðstaða til líkamsræktar í Sporthúsinu sé „stærri og betri“ en í núverandi húsnæði stöðvarinnar í Elliðaárdal og þar er að finna ýmsa þjónustu sem stutt verður fyrir viðskiptavini Boot Camp að sækja, líkt og sjúkraþjálfun, kírópraktora, verslun, snyrtistofu o.fl.

Ætlunin er að Boot Camp verði eins konar stöð inni í stöðinni í Kópavogi og munu iðkendurnir hafa sal út af fyrir sig sem er tvöfalt stærri en núverandi æfingasalur í Elliðaárdal. Um 1.200 virkir iðkendur æfa í Boot Camp og CrossFit Stöðinni.

Þrjú ár eru síðan Boot Camp flutti í núverandi húsnæði í Elliðaárdal en rekstur stöðvarinnar þar reyndist of dýr, að því er fram kemur í fréttatilkynningu, og því var tekin ákvörðun um að flytja hann. Sporthúsið mun sjá um rekstur námskeiða Boot Camp en Róbert Traustason, annar stofnenda Boot Camp, mun áfram leiða starfsemina. Allir þjálfarar og lykilstarfsmenn Boot Camp flytjast með starfseminni. Crossfit Stöðin sem nú er starfrækt í Elliðaárdalnum mun sameinast Crossfit Sport sem er þegar með æfingaaðstöðu og í fullum rekstri innan Sporthússins.

Getur nú einbeitt sér að því að þjálfa

Haft er eftir Róberti Traustasyni, stofnanda Boot Camp í fréttatilkynningu að honum lítist vel á aðstöðuna í Sporthúsinu. „Þótt Sporthúsið taki yfir rekstrarhlutann munu iðkendur Boot Camp ekki finna fyrir neinum breytingum, að nýju húsnæði undanskildu. Það verða sömu erfiðu æfingarnar undir vökulum augum sömu þjálfaranna. Boot Camp hefur vaxið gífurlega frá stofnun þess og auknar vinsældir stöðvarinnar sýndu okkur að núverandi húsnæði er ekki að duga okkur. Því erum við himinlifandi með að hafa fundið framtíðarhúsnæði Boot Camp og Crossfit Stöðvarinnar með flutningnum í  Sporthúsið. Þar fáum við að halda öllum okkar sérkennum, við verðum hluti af sterkri heild Sporthússins og æfingaaðstaðan verður mun betri fyrir iðkendur okkar. Þá gefst mér tækifæri til að taka mér hvíld frá skrifstofuvinnunni og einbeita mér meira að því sem mér þykir skemmtilegast, að þjálfa í Boot Camp og vera hluti af því að skapa einstaka stemningu – þar liggur ástríða mín.“

Stór og samheldinn viðskiptavinahópur

Þröstur J. Sigurðsson, eigandi Sporthússins, segir í fréttatilkynningu að hann hafi fylgst með Boot Camp vaxa og dafna frá því það var stofnað árið 2004.  „Viðskiptavinahópurinn er stór og samheldinn og reksturinn var flottur en stóð því miður ekki undir sér í því umhverfi sem hann bjó við. Í Sporthúsinu munu viðskiptavinir Boot Camp hafa aðgang að sérbúinni æfingaaðstöðu, auk þeirrar líkamsræktaraðstöðu og hóptímum sem við höfum uppá að bjóða. Ég hlakka til samstarfsins við Róbert og félaga og að geta fylgst með öllu því skemmtilega sem þeir taka upp á og bjóða iðkendum að taka þátt í.“

Þröstur J. Sigurðsson, eigandi Sporthússins.
Þröstur J. Sigurðsson, eigandi Sporthússins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert