Varðstaða um þrönga hagsmuni

Félag atvinnurekenda gagnrýnir lagabreytingu Alþingis á búvörulögum, sem félagið segir …
Félag atvinnurekenda gagnrýnir lagabreytingu Alþingis á búvörulögum, sem félagið segir festa í sessi núverandi fyrirkomulag útboðs á innflutningskvóta fyrir búvörur. Eggert Jóhannesson

Þær breytingar á búvörulögum sem samþykktar voru í síðustu viku á Alþingi eru enn eitt dæmið um að Alþingi standi vörð um þrönga hagsmuni landbúnaðarins þar sem réttur neytenda og samkeppnissjónarmið skipta engu máli. Þetta kemur fram í frétt félags atvinnurekenda, en breytingin var gerð eftir dóma héraðsdóms þar sem útboðsgjöld fyrir innflutningskvóta á búvörur var dæmdur ólöglegur. 

Segir í tilkynningunni að lagabreytingin sem var samþykkt festi í sessi núverandi fyrirkomulag útboðs á innflutningskvóta fyrir búvörur. Þannig er rennt frekari stoðum undir fyrirkomulag sem að áliti Samkeppniseftirlitsins hækkar vöruverð og hindrar samkeppni.

Héraðsdómur taldi útboðsgjaldið skatt og að með því að gefa landbúnaðarráðherra val samkvæmt búvörulögum um hvort innflutningskvóti væri boðinn út eða varpað um hann hlutkesti hefði Alþingi framselt of mikið skattlagningarvald til ráðherrans.

Stuttu fyrir þinglok skilaði meirihluti atvinnuveganefndar um frumvarp um óskyldar breytingar á búvörulögum. Því áliti fylgdi breytingartillaga, um að fella burt  heimild ráðherra í búvörulögunum til að láta hlutkesti ráða úthlutun þegar umsóknir berast um meiri innflutning en nemur tollkvóta.

Félag atvinnurekenda kvartar yfir því að breytingartillagan hafi verið sett fram eftir að hagsmunaaðilar höfðu komið á fund atvinnuveganefndar til að segja álit sitt á frumvarpinu, sem að uppistöðu fjallar um allt aðra hluti; flutning stjórnsýsluverkefna frá Bændasamtökum Íslands til Matvælastofnunar.

Breyting meirihluta Alþingis á búvörulögunum gengur þvert gegn ábendingum Samkeppniseftirlitsins, sem hefur ítrekað lagt til að útboð á tollkvóta verði aflagt, segir í tilkynningunni, en Samkeppniseftirlitið benti á að núverandi fyrirkomulag hefði stuðlað að hærra vöruverði, hamlað samkeppni og hindraði aðgang nýrra innflutningsfyrirtækja að markaðnum. Við þessu bregst Alþingi með því að strika út úr lögunum þá leið sem Samkeppniseftirlitið leggur til að sé farin og festir núverandi fyrirkomulag í sessi, segir jafnframt í tilkynningunni.

„Þessi vinnubrögð eru með ólíkindum en koma því miður ekki að öllu leyti á óvart,“ ef haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda. „Þegar kemur að landbúnaðinum virðast bæði ríkisstjórn og Alþingi, sama hver er þar í meirihluta, líta svo á að sjónarmið um samkeppni og hag neytenda skipti ekki máli. Þegar brotið er á rétti neytenda fer löggjafinn í það að hylma yfir brotið og réttlæta það í stað þess að rétta hlut neytenda. Þetta er galið.“ Bætir Ólafur því við að þetta sé enn eitt dæmið um að Alþingi stendur vörð um þrönga hagsmuni og ónýtt kerfi. Réttur neytenda skiptir engu máli, segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert