Hlaupið í þágu friðar

Hlauparar í Friðarhlaupinu eru nú komnir austur á firði eftir að hafa hlaupið um Suðurland og Reykjanes. 

Kveikt var á friðarkyndlinum 29. júní í ísgöngunum í Langjökli, en skipuleggjendur völdu þann stað því hann endurspeglar frið og sérstæðu Íslands og er í samræmi við þau orð Sri Chinmoy að Ísland er frumkvöðull í friðarmálum, bæði hvað varðar friðinn í hjarta þjóðarinnar og í náttúrunni, samkvæmt fréttatilkynningu.

Friðarhlaupið er alþjóðlegt kyndilboðhlaup sem fer fram um allan heim. Tilgangur þess er að efla frið, vináttu og skilning manna og menningarheima á milli. Hér á landi er hlaupið 1.-24. júlí og taka erlendir hlauparar þátt en öllum er heimilt að taka þátt.

 „Markmiðið er að minna á að heimsfriður á upphaf sitt í hjarta hvers einstaklings,“ segir Torfi Leósson, sem annast skipulag þess hér á landi, í samtali við Morgunblaðið nýverið.

Hvorki hefur verið leitað eftir áheitum né stuðningi pólitískra málstaða. „Það koma margir að hlaupa með okkur til að sýna stuðning við málstaðinn og það veitir okkur aukna orku til að klára hlaupið,“ segir hann, en þetta hlaup sé ólíkt öllum öðrum af þeim sökum. „Erlendu gestirnir sem hlupu með okkur í fyrrasumar í verulega slæmu veðri furðuðu sig á því að það voru alltaf einhverjir sem mættu til að hlaupa með okkur þrátt fyrir það og alltaf brosandi,“ segir Torfi ánægður.

Hlaupið er meðfram strandlengju Íslands, 2600 km, og markmiðið er að koma við í hverjum þéttbýliskjarna sem verður á leiðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert