Massatúrismi af verstu gerð

Clive Stacey, framkvæmdastjóri og eigandi Discover the world.
Clive Stacey, framkvæmdastjóri og eigandi Discover the world. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fjöldi ferðamanna sem kemur hingað kemur í gegnum ferðaskrifstofur sem gefa litlar sem engar upplýsingar um áfangastaðinn og því hafa ferðamennirnir mjög litla hugmynd um hvað hægt er að upplifa hér. Þannig er ferðamönnum oft smalað upp í rútur og farið með þau út fyrir borgina án þess að þau eigi möguleika án þess að upplifa það markverðasta sem Ísland hefur upp á að bjóða. Þetta er dæmi um massatúrisma af verstu gerð. Þetta segir Clive Stacey, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Discover the world, en hann hefur selt ferðir til landsins í á fjórða áratug.

Í viðtali á vefnum Túristi segist Clive hafa áhyggjur af skorti á áætlun varðandi uppbyggingu og fjölgun ferðamanna utan Reykjavíkur. Segir hann raunverulega hættu á að falleg náttúrusvæði verði eyðilögð. Segir hann eitt helsta aðdráttarafl Íslands möguleikann á að upplifa stór opin svæði fjarri hópum ferðamanna og búast margir enn við að upplifa það.

Ferðaskrifstofa Stacey mun á næsta ári hefja beint áætlunarflug frá London til Egilsstaða, en hann segir að höfðað verði til ferðamanna sem hafi þegar komið á suðvesturhornið, en vilji ósvikna upplifun fjarri massatúrismanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert