Uppbygging ferðamannastaða er „fimm ára átak“

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Mbl.is/Eggert

Rúmlega helmingur þess fjármagns sem var úthlutað í fyrra í sérstakri úthlutun til uppbyggingar á ferðamannastöðum er enn eftir í framkvæmdasjóði. Þetta segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, en í sumarbyrjun 2014 var 380 milljónum króna úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til 88 verkefna um land allt sem talin voru brýn vegna verndunar eða öryggissjónarmiða og þoldu ekki bið.

Hún segir að því sé ekki aðeins um skort á fjármagni að ræða þegar kemur að uppbyggingu innviða vegna aukins ferðamannastraums hingað til lands.

„Í fyrra var úthlutað án þess að það þyrfti að leggja fram mótframlag og úthlutað til þeirra verkefna sem voru klár til framkvæmda. Nú í sumarbyrjun eru enn eftir í framkvæmdasjóði 200 milljónir þar sem fjármunum er úthlutað að hluta í upphafi og síðan eftir framvindu verkefnisins. Jafnvel þeim verkefnum sem uppfylltu þessi skilyrði og voru tilbúin til framkvæmda er enn ólokið,“ segir Ragnheiður.

Ástæðurnar eru ýmsar; mikið rigningasumar í fyrra, erfiðlega gekk að fá verktaka, hönnunarferli tók breytingum og deiliskipulag var ekki klárt. „Allt góðar og gildar ástæður. Breytingar taka tíma jafnvel þó fjármögnun sé lokið,“ segir Ragnheiður en aðilar ferðaþjónustunnar segja að stjórnvöld beri ábyrgð á slæmum innviðum hérlendis, m.a. á skort á salernisaðstöðu fyrir ferðamenn.

Niðurstöður stefnumótunarvinnu kynntar í næsta mánuði

Í sumarbyrjun þessa árs samþykkti ríkisstjórnin að verja 850 milljónum króna til brýnna uppbyggingar- og verndaraðgerða á ferðamannastöðum sem eru í eigu eða umsjón ríkisins. Ragnheiður segir að tíu prósent þeirrar fjárhæðar, eða rúmlega 80 milljónum króna, verði varið til uppbyggingu salernisaðstöðu um landið en aldrei hefur eins miklum fjármunum verið varið til málaflokksins og nú að sögn Ragnheiðar. Það sé gert þar sem stjórnvöld viti að þarna er þörf á úrbótum en verkefninu er hvergi nærri lokið.

„Við þurfum að fara í ákveðið átak núna sem ég áætla að taki um fimm ár. Það má segja að þessi aukning hafi verið svo gríðarleg á síðustu árum að við hefðum átt að vera byrjuð löngu fyrr. En við erum bara á þeim stað sem við erum á núna og því erum við að spýta í lófana," segir Ragnheiður.

Niðurstöður úr stefnumótunarvinnu ráðuneytisins, Samtaka ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofu verða kynntar í næsta mánuði og segir Ragnheiður að unnið verði eftir þeim tillögum sem koma úr þeirri vinnu. Hluti af þeirri vinnu fólst í fundum með aðilum úr ferðaþjónustunni og eins var skoðað hvernig staðið er að umgjörð um ferðamál í þeim löndum þar sem vel hefur tekist til. „Nýja Sjáland, Skotland og Kanada eru allt lönd sem standa framarlega í stefnumótun og umgjörð fyrir þessa atvinnugrein," segir Ragnheiður.

Hún segir vinnuna marka stefnu landsins til nálægrar framtíðar og til lengri tíma litið um hvernig ferðamannaland Ísland vilji vera og hvernig hægt sé að uppfylla þau skilyrði sem við þurfum að uppfylla til að halda þeim gæðum sem Ísland hefur upp á að bjóða.

Tillögurnar eru ekki fullmótaðar en að sögn Ragnheiðar stendur það helst upp úr að ráðast þarf í frekari uppbyggingu innviða og brýn þörf er á frekara samstarfi á milli ýmissa aðila.

„Þetta er fjölbreytt atvinnugrein sem snertir marga anga þjóðfélagsins. Við þurfum að samhæfa stjórnsýsluna og róa öll í sömu átt í þeim efnum," segir Ragnheiður.

Tekjur af erlendum ferðamönnum um 50 milljarðar króna

Ragnheiður segir tekjur ríkisins af erlendum ferðamönnum vera gríðarlegar, um 50 milljarðar króna, en það sé eins með allar atvinnugreinar, þær borga sína skatta og ekkert bókhald sé til um það hvað renni aftur til viðkomandi atvinnugreinar.

„Þetta fer í okkar sameiginlegu sjóði sem er síðan ráðstafað af Alþingi. En með t.d. 850 milljóna króna auka fjárveitinguna tókum við mið af því að við erum að fá gríðarlega vaxandi tekjur með þeim aukna ferðamannafjölda sem hingað kemur,“ segir hún. Því hafi það þótt réttlætanlegt að verja fjármunum sem verða til vegna ferðamannastraumsins til uppbyggingar ferðamannastaða.

„Þetta snýr líka að upplifun okkar Íslendinga. Við viljum vernda okkar náttúru þannig að hún beri ekki skaða af þessum aukna straumi," segir hún. Eins vinnur fjármálaráðherra að því að afnema sem flestar undanþágur í virðisaukaskattskerfinu, en nokkrar atvinnugreinar eru undanþegnar virðisaukaskatti. Nefnir hún t.d. baðstaði eins og Bláa lónið og hvalaskoðun í því samhengi.

Ragnheiður Elín Árnadóttir.
Ragnheiður Elín Árnadóttir. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert