Fleiri ferðamannastaðir varasamir

Dettifoss er svo sannarlega tilkomumikill, en það getur einnig reynst …
Dettifoss er svo sannarlega tilkomumikill, en það getur einnig reynst varasamt að ganga að fossinum. Í gær slösuðust tvær konur sem þangað fóru. mbl.is/Rax

Það að fólk slasi sig við vinsæla ferðamannastaði er angi af því að ekki er búið að byggja upp betri aðstöðu fyrir ferðamenn, nema á nokkrum stöðum í kringum landið. Nauðsynlegt er að byggja upp afturkræfanleg mannvirki sem bæði vernda ferðamenn og náttúruna, en slíkt þekkist um allan heim þegar fólk gengur meðfram gljúfrum og fossum. Þetta segir Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna ferðamanna hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, en kom það upp tvisvar að ferðamenn duttu og slösuðu sig við Dettifoss.

„Við Dettifoss er mjög grýtt og bratt niður að fossinum,“ segir Jónas um aðstæður við fossinn og bætir við að þar sé umhverfið mjög náttúrulegt enda hafi lítið verið byggt upp í kringum hann. „Það sama á við með Goðafoss, þú labbar bara í umhverfi sem náttúran býr til,“ segir hann.

Þurfum að vernda bæði ferðamanninn og náttúruna

Jónas segir ekki óeðlilegt að einhver detti eða renni við svona aðstæður. Bendir hann á að nú þegar hafi verið farið af stað með framkvæmdir til að draga úr þessari áhættu, auk þess að vernda náttúruna, við Gullfoss, en þar hefur mikið verið byggt upp á efra svæðinu.

„Við hljótum að vilja byggja upp einhver afturkræfanleg mannvirki sem vernda bæði ferðamanninn og náttúruna. Við gætum svo tekið þetta til baka eftir 100 ár og það væri eins og ekkert hefði skeð,“ segir Jónas um svona mannvirki, en þar á hann við bættar gönguleiðir að stöðunum og palla sem gengið er á við staðinn sjálfan.

Ekkert að því að ferðamenn gangi á pöllum

Segir Jónas að það þurfi að horfa til þess að stýra ferðamönnum og að vernda náttúruna. „Um allan heim sættir fólk sig við að labba á pöllum meðfram gljúfrum og fossum, það er ekkert að því,“ segir hann. Bendir Jónas t.d. til Viktoríufossa á landamærum Sambíu og Zimbabwe í Afríku og Níagrafossa í Bandaríkjunum.

Af öðrum stöðum sem geta reynst varasamir bendir Jónas á Seljalandsfoss og Dyrhólaey. Segir hann þessa staði kalla fljótt á uppbyggingu og raunar flesta staði þar sem eru vinsælir hjá ferðamönnum og fólk getur dottið fram af. „Þar sem náttúran hefur byggt hættulegar aðstæður og þar sem fólk getur fallið fram af,“ segir hann vera varasamasta.

Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna ferðamanna hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu.
Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna ferðamanna hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu.
Mjög fallegt útsýni getur verið við Dyrhólaey, en Jónas segir …
Mjög fallegt útsýni getur verið við Dyrhólaey, en Jónas segir margt þar einnig bjóða hættunni heim. mbl.is/Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert