Eldhúsið ónýtt eftir viku í rekstri

Sigló Hótel telur 68 herbergi og rúmar 130-140 gesti.
Sigló Hótel telur 68 herbergi og rúmar 130-140 gesti. Ljósmynd/Sigló Hótel

Fumlaus viðbrögð starfsfólks urðu til þess að betur fór en á horfðist þegar eldur kom upp í eldhúsi Sigló hótels á Siglufirði í hádeginu í dag. Hótelið var opnað fyrir aðeins viku en Róbert Guðfinnsson athafnamaður segir stefnt að því að koma eldhúsinu í lag fyrir verslunarmannahelgi.

„Við vorum  heppin. Það var enginn í eldhúsinu, þetta sást utan frá og það var gert viðvart og mitt fólk var mjög snöggt að bregðast við og gerði hlutina faglega og rétt, þannig að þegar slökkviliðið kemur er búið að slökkva eldinn og þá er farið í að reykræsta,“ segir Róbert.

Eldurinn kom upp í nýjum steikarpotti sem tekinn var í notkun í morgun. Róbert segir eitthvað; galla í pottinum eða mistök, hafa orðið til þess að hann ofhitnaði og það kviknar í feiti. Eldurinn læsti sig í eitthvað fleira en pottinn og rúður sprungu en aðallega var um að ræða reykskemmdir, að sögn Róberts.

Eldhúsið er gjörónýtt og skipta verður öllu út.

Sigló hótel telur 68 herbergi og var fullbókað síðustu nótt. Flestir gestanna voru farnir þegar atvikið átti sér stað en hluti þeirra gesta sem áttu bókað herbergi í nótt mun dvelja á hótelinu og hluti annars staðar. Róbert segist gera ráð fyrir að öll herbergi verði komin aftur í notkun eftir helgi.

„Við ætlum okkur að vera komin með eldhúsið í gagnið fyrir verslunarmannahelgi, eftir viku. Svo eigum við tvo veitingastaði þarna og þeir hlaupa undir bagga,“ segir Róbert, sem lætur ekki deigan síga. „Svo er okkar fólk, ásamt hreingerningafyrirtæki sem tryggingafélagið kom með; það vinnur bara allan sólarhringinn við að þrífa og kraftur í mínu fólki sem vill bara rjúka í þetta og koma þessu í stand aftur.“

Einn starfsmaður hótelsins var fluttur til Akureyrar vegna reykeitrunar og sjálfur fékk Róbert aðhlynningu á staðnum vegna minniháttar reykeitrunar. Þegar mbl.is ræddi við hann var hann nýkominn frá því athuga hvort ekki færi vel um gesti og sýndist þeir vel haldnir.

„Þetta er smááfall sem við fáum en ég held að þetta sé eitthvað sem við vinnum úr og mun ekki skilja eftir mikil ör. Við bara þökkum fyrir það að það voru ekki margir gestir inni og þökkum fyrir það að starfsfólkið okkar slapp,“ segir Róbert.

Hann segir að þrátt fyrir hamagang dagsins hafi hótelreksturinn farið vel af stað.

„Númer eitt, tvö og þrjú er að okkar viðskiptavinir eru himinlifandi með hve vel okkur hefur tekist með þetta hótel og það er það sem skiptir öllu máli.“

Frétt mbl.is: Hótelbruni á Siglufirði

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert