„Ég mun ekki þegja“

Sóley Tómasdóttir forseti borgarstjórnar Reykjavíkur hélt ræðu á fundinum.
Sóley Tómasdóttir forseti borgarstjórnar Reykjavíkur hélt ræðu á fundinum. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Þolendur eru hættir að bera harm sinn í hljóði. Þeir hvísla ekki lengur sín á milli og þeir láta ekki sjálfshjálparhópa og lokuð vefsvæði duga.“ Þetta sagði Sóley Tómasdóttir forseti borgarstjórnar Reykjavíkur í ræðu sinni á Austurvelli í dag, þar sem Druslugangan endaði.

„Það er kominn tími til að við hættum að hlífa samfélaginu fyrir sjálfu sér og nauðgunarmenningunni sem það hefur alið af sér. Í stað þagnar sem áður stóð vörð um ofbeldið hefur byltingin sett fram háværa kröfu um breytingu, um aðgerðir, um betra samfélag.“

„Skjólið er ekki lengur til staðar, byltingin er hafin, en henni er hvergi nærri  lokið. Nú er komið að okkur, þolendum, aðstandendum, aktívistum og stjórnmálafólki að standa saman og halda fast á málunum.“

Sóley segir þöggunina í kynferðisbrotamálum ekki snúast um persónur heldur sé hún kerfislæg. 

„Kynbundið ofbeldi er tabú. Þolendum er gert að þegja. Stjórnmálafólk á að halda kjafti og einbeita sér að öðrum og mikilvægri málum. Alvöru stjórnmálum.“

Hún hóf líka upp röst sína gegn þeim sem gagnrýnt hafa hana í gegnum tíðina. „Allir heimsins spindoktorar geta reynt að halda því fram að ég hati son minn, að ég sé heimsk eða sjúklega leiðinleg. Ég mun ekki þegja.

Öll heimsins kommentakerfi mega loga og fordæma mig og skoðanir mínar. Ég mun ekki þegja. Ég get tekið við meiðyrðum og hótunarbréfum. Ég mun ekki þegja. 

Og þið sem eruð alltaf að segja mér að ég þurfi að breikka mig sem pólitíkus, og að stjórnmál snúist nú um svo margt annað en feminisma. Sorrý, ég mun ekki þegja.“

Þá nefndi Sóley einnig það hvernig hún telur samfélagið hlutgera stelpur frá unga aldri. „Stelpu- og strákaísar. G-strengur fyrir börn. Kynferðislegar áletranir á barnafötum. Prinsessu- og ofurhetjubúningar. Dægurlög sem upphefja kynferðisofbeldi og klámvæddar poppstjörnur. Þetta eru ekki smáatriði. Þetta eru púsl í stórri mynd. Mynd af samfélagi sem hlutgerir stelpur frá unga aldri.“

Ræðu Sóleyjar má lesa í heild sinni á vefsíðu hennar

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Sóley Tómasdóttir.
Sóley Tómasdóttir. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert