Létt yfir landinu á morgun

Spáð er hálf- eða léttskýjuðu víðast hvar á landinu á …
Spáð er hálf- eða léttskýjuðu víðast hvar á landinu á morgun. mbl.is/Styrmir Kári

Veðurspáin fyrir morgundaginn bendir til þess að létt verði yfir landinu öllu. Spáð er hálf- eða léttskýjuðu um nær allt land fyrri part dags og seinni partinn fer að létta enn meira til á Vestfjörðum.

Á höfuðborgarsvæðinu verður hálfskýjað samkvæmt spánni og 2-3 metrar á sekúndu. Hitinn verður á bilinu 11-13 stig en þegar fer að nálgast kvöldið verður skýjaðra en engri úrkomu er spáð.

Á Austurlandi er svipuð spá, hálfskýjað og hitinn á bilinu 8-11 stig. Um kvöldið gæti komið einhver þoka á og í kringum Vopnafjörð.

Á Norðurlandi verður besta veðrið. Fyrri part dags verður léttskýjað eða heiðskýrt á Norðausturlandi en þegar líður á daginn færist góða veðrið í vesturátt og fá Vestfjarðarbúar að njóta þess síðdegis. 

Á mánudaginn er spáð skýjuðu veðri á Suður- og Vesturlandi en hitinn helst áfram 12-13 stig á Vesturlandi en 9-12 stig á Suðurlandi. Á Austurlandi hins vegar er spáð fínu veðri, léttskýjuðu eða heiðskíru með hita á bilinu 9-11 stig.

Á þriðjudag fer að koma einhver væta sunnanlands og skýjað eða hálfskýjað verður á nær öllu landinu. 

Á miðvikudag er svo spáð rigningu á nær öllu landinu, mest á Suðurlandi og á fimmtudag eykst rigningin á Suður- og Vesturlandi. 

Sjá veðurvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert