Verðlaunahrútar og tískusýning

Mærudagurinn fer fram á Húsavík í dag, en hann leysir af hina gamalkunnu Mærudaga (í fleirtölu) sem áður voru haldnir. Bæjarbúar tóku þó forskot á sæluna í gærkvöldi og stóðu fyrir ýmsum uppákomum, en t.a.m. fór fram hrútasýning Fjáreigendafélags Húsavíkur við höfnina, tískusýning frá Handverkshúsinu Kaðlín og karlakórssöngur auk þess sem boðið var upp á grillað lambakjöt.

Veitt voru verðlaun fyrir glæsilegasta hrútinn, en þau hreppti hrútur í eigu Friðriks Jónassonar. Yfirdómari í keppninni var útvarpskonan Guðrún Dís Emilsdóttir.

Ákveðið var að þjappa Mærudögum saman í einn dag í hagræðingarskyni, en áður náðu þeir yfir alla helgina. Var þetta m.a. gert til að nýta svið hátíðarinnar betur, en einnig hafði umtalsverð styrkskerðing frá Norðurþingi mikið að segja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert