Eitt morð í höfuðborginni í fyrra

Lesa má í skýrslunni að margt dreif á daga lögreglunnar …
Lesa má í skýrslunni að margt dreif á daga lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í fyrra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hegningarlagabrotum fækkaði milli ára á höfuðborgarsvæðinu  í fyrra, kynferðisbrotum mest. Þetta kemur fram í ársskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2014, en þar kemur reyndar einnig fram að óvenju mikill fjöldi kynferðisbrota hafi verið til rannsóknar árið áður.

Ofbeldisbrotum fækkaði ekki og hefur þeim farið fjölgandi allt frá frá 2011. Samkvæmt skýrslunni áttu flest þeirra sér stað að kvöld- eða næturlagi og ósjaldan í miðborg Reykjavíkur.

Eitt morð var framið á höfuðborgarsvæðinu og er um það fjallað í skýrslunni:

„Afleiðingar ofbeldis geta verið hörmulegar og sú varð raunin síðustu helgina í september, en lögreglan var þá kölluð að fjölbýlishúsi í Breiðholti í Reykjavík. Í einni íbúðinni bjuggu hjón á þrítugsaldri og tvö ung börn þeirra, 2 og 5 ára. Eiginkonan var látin þegar að var komið, en strax vaknaði grunur um að dauða hennar hefði borið að með saknæmum hætti. Eiginmaðurinn var handtekinn í íbúðinni, en börnunum var komið í umsjá barnaverndaryfirvalda. Við yfirheyrslur þótti frásögn mannsins af því sem gerðist ekki trúverðug, en rannsókn málsins var viðamikil eins og ávallt í málum sem þessum. Svo fór að eiginmaðurinn var ákærður fyrir að bregða reim úr hettupeysu um háls eiginkonunnar og þrengja að með þeim afleiðingum að hún lést.“

Í skýrslunni kemur fram að þetta hafi veirð níunda manndrápsmálið á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2007.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert