Þegar sólin gægist gegnum ísslæðu

Robin Martensson tók þessa mynd af rosabaugnum fyrir stundu.
Robin Martensson tók þessa mynd af rosabaugnum fyrir stundu. Ljósmynd/Robin Martensson

Fyrir stundu birtist svokallaður rosabaugur á himni í höfuðborginni, en hann myndast þegar sólin skín í gegnum þunna skýjabreiðu hátt á lofti, sem gerð er úr ískristöllum.

„Ljósið frá sólinni brotnar í kristöllunum og það myndast eins konar regnbogi kringum sólina. Ískristallarnir eru sexstrendingar og þegar ljósið fer í gegnum þá breytir það um stefnu, en misjafnlega mikið eftir því hvernig það fellur á strendinginn,“ segir m.a. um fyrirbærið á vef Veðurstofu Íslands.

En boðar rosabaugur rigningu, eins og maður sagði þegar baugurinn birtist á himnum?

„Blikan getur gert það; blikan er oft undanfari skila og regnþykknis en rosabaugurinn sem slíkur segir okkur í raun ekkert um það,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni. „En síðan er sagt „Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni“, það er eitthvað gamalt. Ég held að það sé nú ekki vísindalega sannað,“ segir hún.

Um gíl og úlf segir á vef Veðurstofunnar:

„Rosabaugur (halo) er oftast einlitur en stundum er baugurinn rauðleitur að innanverðu (nær sólinni) en blár að utanverðu. Stundum myndast bjartir blettir (úlfar, e. parhelia, sun dogs) sitt hvoru megin við sólina. Blettirnir eru 22-24° frá sólinni. Sé greint á milli blettanna kallast sá hægra megin (á undan sólinni) gíll en sá vinstra megin úlfur. Stundum sést aðeins einn blettur.“

Hvorki að hlýna né kólna

En hvað segir Elín um veðrið næstu daga og um verslunarmannahelgina?

„Það er ósköp lítil breyting á morgun. Síðan er útlit fyrir að það verði aðeins meiri væta sunnantil á miðvikudaginn og léttskýjað aðeins á Norðurlandi. Fimmtudagurinn virðist ætla að verða þokkalegur, það eru samt svona síðdegisskúrir á suðvestanverðu landinu. Eins og ástandið er í dag er útlit fyrir hvassa norðaustanátt á Vesturlandi á föstudag en hægviðri á austanverðu landinu og það verður víða skýjað eða skýjað með köflum og einhver væta syðst.“

Elín segir engin stórtíðindi í kortunum, hvorki að fari að hlýna né kólna. Hún vill sem allra minnst spá í helgina og bendir kurteisislega á að það sé nú bara mánudagur. Hún gefur þó þetta upp um ferðaveðrið:

„Núna er hægt að ferðast hvert sem er en sunnudagurinn lítur út fyrir að ætla að verða vætusamur um allt land og fólk á bílum sem taka á sig mikinn vind og með hjólýsi; það er væntalega ekki á leiðnni vestur á firði miðað við þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert