Dísilolían komin undir 200 krónur

Neytendum munar um lækkanir á eldsneytisverði.
Neytendum munar um lækkanir á eldsneytisverði. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Lítraverðið á dísilolíu er komið undir 200 krónur hjá Orkunni, Atlantsolíu og Skeljungi. Eldsneytið er ódýrast hjá Orkunni, þar sem lítrinn kostar 199,20 krónur. Hjá Atlantsolíu kostar hann 199,30 krónur og 199,60 krónur hjá Shell.

Upplýsingarnar eru fengnar á vefsíðunni gsmbensin.is.

Lítraverðið á dísilolíu fór síðast undir 200 krónur í upphafi árs. Hugi Hreiðarsson, upplýsingafulltrúi Atlantsolíu, segir lækkunina nú m.a. ráðast af því að eftirspurn minnkar seint í júlí þegar ferðalögum fækkar.

Hann bendir á að lítrinn af dísilolíu sé 38 krónum ódýrari í dag en 29. júlí í fyrra, og hefur reiknað að ferðin frá höfuðborgarsvæðinu til Akureyrar kosti því 1.200 krónum minna í ár en 2014.

Muninn má rekja til ákvörðunar olíuframleiðenda um að draga ekki úr framleiðslu þrátt fyrir minnkandi eftirspurn og verðlækkanir.

Hjá ÓB kostar lítrinn af dísilolíu 205,30 krónur og 205,50 krónur hjá N1 og Olís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert