Þörfin til staðar yfir sumartímann

Svipaður fjöldi fær aðstoð Samhjálpar yfir sumartímann og á öðrum …
Svipaður fjöldi fær aðstoð Samhjálpar yfir sumartímann og á öðrum árstímum. Mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við lokum ekkert á sumrin. Það er allt í fullum gangi hjá okkur og biðlistarnir í meðferðarheimilið okkar í Hlaðgerðarkoti hafa aldrei verið lengri,“ segir Vörður Leví Traustason framkvæmdastjóri Samhjálpar um starfsemi félagsins yfir sumartímann.

„Við höfum verið með á milli 60-70 manns á biðlista í Hlaðgerðarkot en nú eru rúmlega 90. Annars gengur starfsemin bara vel og allt í fullum gangi.“

Samhjálp rekur kaffistofu fyrir útigangsmenn og þrjú áfangaheimili. Enginn munur er á aðsókn í aðstoðina eftir árstímum. „Það er bara eins og venjulega yfir sumartímann. Heldur minna rétt eftir mánaðarmót, þá minnkar aðeins þar sem einhverjir hafa fengið útborgað en annars eru alltaf hátt í 200 manns sem koma yfir daginn, svipað og yfir árið í heild sinni,“ segir Vörður.

Engin breyting er á aðsókn í aðstoðina á milli ára. „Það er frekar fjölgun heldur en fækkun. Í fyrra voru um 60 þúsund heimsóknir á árinu og okkur sýnist það stefna í annað eins nú í ár.“

Samtökin nýta sumarið í að mála og gera meðferðarheimilið í Hlaðgerðarkoti snyrtilegt og undirbúa landssöfnun í haust.

„Við erum með merkjasölu í gangi en henni er að ljúka. Sú söfnun hefur gengið vel. Við höfum nánast selt upp lagerinn af merkjum. Svo stefnum við að landssöfnun í fyrsta skiptið í haust,“ segir Vörður en sú landssöfnun verður í samstarfi við Stöð 2.

„Við höfum aldrei farið í landssöfnun áður. Við ætlum að safna fyrir enduruppbyggingu á Hlaðgerðarkoti sem er elsta meðferðarúrræði landsins,“ segir Vörður. Heimilið var opnað 1974.

Að meðaltali 25 gestir í gistiskýlinu á hverri nóttu

Samkvæmt upplýsingum frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar er heldur enginn breyting á fjölda þeirra sem nýta sér gistiskýli borgarinnar yfir sumartímann en borgin tók nýlega við rekstri skýlisins. Að meðaltali gista 25 karlmenn í skýlinu um hverja nótt, allt frá 22 og upp í 29. Gistiskýlið er opið allan ársins hring.

Í byrjun sumars hóf borgin rekstur skýlisins sem er staðsett við Lindargötu og er opið frá 17-10 á hverri nóttu. Aðstaða er fyrir 20 manns til gistingar en hægt er að fjölga rúmum ef þörf er á því. 

Átta starfsmenn vinna á vöktum í skýlinu og var í vor ráðinn inn pólskumælandi starfsmaður. Ástæðan er sú að um 40% þeirra sem nota aðstöðuna eru pólskir karlmenn. 

Eldhús Reykjavíkurborgar við Lindargötu 59 sér um matarinnkaup fyrir skýlið og er gestum boðið upp á næturhressingu og morgunmat.

Mæðrastyrksnefnd, sem sér um matarúthlutanir í húsnæði félagsins að Hátúni 12, er í sumarleyfi frá lokum júní fram í miðjan ágúst. Framkvæmdastjóri stjórnar Mæðrastyrksnefndar segir þörfina á úthutununum vera svipaða á sumrin og yfir árið. Þannig hafi svipaður fjöldi fengið aðstoð í júní og á öðrum tíma ársins. Í byrjun ágúst hefst svo undirbúningsvinna fyrir úthlutanir haustsins. 

Gistiskýli Reykjavíkurborgar við Lindargötu 48.
Gistiskýli Reykjavíkurborgar við Lindargötu 48. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert