Lottómiðinn hækkar úr 70 í 80 krónur

Seld röð í Víkingalottó kemur til með að hækka úr 70 krónum í 80 krónur hinn 9. september.

Stefán Snær Konráðsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar getspár, segir verð á hverri röð í Víkingalottó aðeins lægra í einu landi en á Íslandi, en dýrust er röðin í Litháen þar sem hún kostar um 130 krónur.

Hann segir að því sé verið að lagfæra verðið í samræmi við verðlagningu í öðrum löndum.

„Það er tvennt sem við erum að gera, hækka verð og breyta innra fyrirkomulagi leiksins,“ segir Stefán en víkingalottóröðin hjá Íslenskri getspá hækkaði síðast í verði árið 2012.

Stefán segir að reynt sé að stilla verðhækkunum í hóf og að ekki sé mikið um að miðaverð í lottóleikjum Íslenskrar getspár sé hækkað.

„Við reynum að halda verðinu óbreyttu, þannig að ekki sé alltaf verið að breyta um takt,“ segir hann.

Samhliða hækkuninni breytist flokkaskipting í Víkingalottó, sem felur í sér að hærri upphæðir verða í fyrsta vinning og í ofurpottinum, að sögn Stefáns.

„Íslendingar eru „stórpottasækin“ þjóð,“ segir Stefán, spurður um fjölda Íslendinga sem spila með í lottó. Þannig sveiflast fjöldi íslenskra lottóspilara með pottastærðinni, þó að það sé alltaf ákveðinn kjarni sem spilar alltaf með að sögn Stefáns. ash@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert