Milljarða samdráttur í tekjum af makríl

Makríllinn hefur verið góð búbót undanfarin ár.
Makríllinn hefur verið góð búbót undanfarin ár. mbl.is/Albert Kemp

„Það er þegar orðið milljarða tap og útlitið svart,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, um stöðuna á alþjóðlegum mörkuðum fyrir makríl sem veiddur er á Íslandsmiðum. Veiðarnar ganga ágætlega sem stendur, en treglega gengur að selja fiskinn. Meðal annars er einn mikilvægasti markaðurinn, Nígería, lokaður vegna gjaldeyrisskorts. Eru dæmi þess að vinnslur hafi hætt móttöku makríls vegna þeirrar stöðu sem upp er komin. Þannig var sagt frá því hér í blaðinu að Saltver í Reykjanesbæ ætlaði ekki að taka við makríl fyrr en mál hefðu skýrst frekar.

Gjaldeyrisskortur

„Það sem verið hefur að gerast er að gjaldmiðlar svokallaðra nýmarkaðsríkja hafa verið að falla að undanförnu, sumir eins og sá brasilíski um allt að 20%. Þetta er meðal annars rakið til ókyrrðar í fjármálum Kína. Það er gjaldeyrisskortur í þeim löndum sem við Íslendingar höfum mest verið að selja makríl til á undanförnum árum og kaupendur halda því að sér höndum,“ segir Sigurgeir. Hann segir að ofan á þetta bætist fyrir sitt fyrirtæki að Vinnslustöðin hafi ekki getað selt makríl til Rússlands síðan í febrúar vegna einhverra óskiljanlegra viðhorfa stjórnvalda þar. „Rússland hefur verið okkar stærsti markaður fyrir makríl þannig að þetta hefur mikil áhrif. Makríll er um 20% af heildartekjum Vinnslustöðvarinnar,“ segir Sigurgeir.

Makríllinn drjúg búbót

Það eru ekki mörg ár síðan makríll fór að skipta Íslendinga máli. Hann var talinn til flækingsfiska fyrr á árum þegar hann veiddist af og til og kom stundum í smáum torfum upp að landinu. Hlýnun sjávar í byrjun þessarar aldar varð til þess að auka mjög makrílgengd á miðunum við Ísland. Voru útgerðarmenn í Vestmannaeyjum frumkvöðlar í veiðum og vinnslu makríls, meðal annars með frystingu til manneldis um borð í skipum sínum. Og á síðustu árum hefur þessi fyrrverandi flækingsfiskur orðið mikilvægur nytjafiskur Íslendinga, drjúg búbót fyrir útgerð, fiskvinnslu og þjóðarbúið. En nú eru blikur á lofti.

Óselt frá síðasta ári

Ofan á þá óvissu sem ríkir um þann makríl sem veiddur hefur verið í sumar bætist að ekki hefur öll framleiðsla síðasta árs selst. Talsverðar birgðir eru enn í frystigeymslum hér á landi auk þess sem framleiðendur eiga óseldan makríl í geymslum í Hollandi. Um miðjan júní var áætlað að enn væru óseld um 10 þúsund tonn frá 2014 að verðmæti um milljarður íslenskra króna. Áætlað er að í fyrra hafi verið í frysti um 120 til 130 þúsund tonn af makríl.

„Þetta er þyngsta byrjun á makrílvertíð sem við höfum farið inn í frá því að veiðar úr stofninum hófust,“ var haft eftir Gunnlaugi Ingvasyni, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar, á fimmtudaginn. „Fyrirtækin eru að taka mikla áhættu og framleiðslan að fara í geymslur. Þar sem takmarkað geymslurými er á Íslandi er ljóst að tilfærsla í geymslur erlendis er dýr,“ var ennfremur haft eftir honum.

Helmingi lægra verð

Það eru ekki bara stórútgerðirnar sem veiða makríl. Smábátasjómenn gera það líka. En lítið er fyrir fiskinn að fá þegar í land er komið. Verðið sem vinnslurnar bjóða er um helmingi lægra en í fyrra að því er Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, sagði í samtali við Morgunblaðið. Kílóverðið er á milli 43 og 47 krónur, en var 85 til 90 krónur í fyrra. Haft var eftir Má Ólafssyni, sjómanni á Hólmavík, í blaðinu á fimmtudaginn að sjómenn væru óánægðir með hve lítið væri upp úr veiðunum að hafa. Ofan á lágt verð bættust há veiðigjöld sem þeir þyrftu að greiða ríkissjóði. Þau væru hlutfallslega hærri í ár en í fyrra.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert