Fékk heilablæðingu á þjóðhátíð

Loftmynd sem sýnir Herjólfsdal í Vestmannaeyjum.
Loftmynd sem sýnir Herjólfsdal í Vestmannaeyjum. mynd/Frosti Heimisson

Maður var fluttur á föstudagskvöldið frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur vegna blæðingar á heila sem hann hafði fengið á þjóðhátíð. Ekki er vitað að svo stöddu hvort um slys hafi verið að ræða eða árás, en enginn þeirra sem voru með manninum í hópi varð var við að hann hefði orðið fyrir árás. Blæðingin var stöðvuð eftir að komið var á sjúkrahús í Reykjavík.

Jóhannes Ólafsson, vaktstjóri hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum, staðfestir við mbl.is að málið sé í rannsókn og að unnið verði að því að yfirfara myndbandsupptökur úr Herjólfsdal. Hann segir að búið sé að ræða við alla sem voru með manninum í hópi, en ekkert hafi komið upp úr því sem gæti varpað ljósi á hvað gerðist.

Maðurinn fór á föstudagskvöldið í sjúkraskýli í Herjólfsdal og leitaði sér aðhlynningar vegna áverka í andliti og á vör. Ekkert fannst við þá skoðun og hélt hann áfram að skemmta sér með sínu fólki, að því er Jóhannes segir. Það var svo seinna um kvöldið að komið er að honum ósjálfbjarga og er þá kallað á aðstoð og í framhaldinu ákveðið að senda hann upp á land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert