Skapandi par í Skagafirðinum

Barbara og Dalur sem hefur kennt henni mikið og hún …
Barbara og Dalur sem hefur kennt henni mikið og hún saknar hans.

„Ég hafði verið með þessa hugmynd í maganum í fjölda ára, að bjóða upp á siglingar út á Skagafjörðinn og margir hvöttu mig til dáða. Ég er lærður húsasmíðameistari og vann við það en ég lenti í vélsleðaslysi, fór fram af tíu metra hárri hengju og fékk sleðann ofan á mig og hef ekki getað starfað við smíðar síðan. Þá sá ég að siglingarnar væru eitthvað sem ég gæti snúið mér að. Ég skellti mér á námskeið og varð mér úti um réttindi sem þarf til að sigla og ég fór í fyrstu ferðina 19. júní í fyrra, á kvennafrídaginn,“ segir Ingvar Daði Jóhannsson, eigandi fyrirtækis sem hann kallar Haf og land og er í Hofsósi, en hann býður upp á siglingar frá höfninni við Vesturfarasetrið.

„Þetta gengur mjög vel og ég er búinn að fara með 360 fleiri farþega í siglingar en á sama tíma í fyrra. Enn er ég einvörðungu að bjóða upp á siglingarnar yfir sumarið, ég vil ekki fara of geyst af stað. Ég er í skóla til að auka við mig réttindi svo ég geti siglt stærri báti í framtíðinni. Ég er með margar hugmyndir í kollinum um það hvernig ég ætla að þróa þetta hjá mér. Ég hef trú á þessu og það eru ofboðslega miklir möguleikar í ferðaþjónustu hér í Hofsósi,“ segir Daði, eins og hann er oftast kallaður, en hann er fæddur og uppalinn í Hofsósi.

Einkatúrar eftir óskum fólks

Daði segir þá sem panta siglingar hjá honum vera á öllum aldri og af báðum kynjum. Meirihluti þeirra eru Íslendingar enda á hann eftir að markaðssetja sig fyrir erlenda gesti. Hann getur að hámarki tekið nítján farþega í hverri ferð og ekki færri en fjóra fullorðna.

„Ég er með fasta ferð á morgnana klukkan hálf tíu því þá er sjólagið oftast best. Þetta er tveggja tíma ferð og við rennum út í Þórðarhöfða, skoðum Bergrósina sem er einstakt náttúrufyrirbæri þar í stuðlabergsklettunum. Síðan siglum við út í Málmey og skoðum hana frá sjó. Ef fólk vill þá getur það fengið að veiða á sjóstöng í þessum morgunsiglingum en ég býð líka upp á siglingar sem eru einvörðungu sjóstangveiðiferðir. Það veiðist vel hér á þessum miðum og það er mikið fjör, sérstaklega fyrir krakka. Hvalir synda líka stundum með okkur, sem vekur mikla lukku,“ segir Daði og bætir við að hann bjóði einnig upp á miðnætursiglingar, sem eru mjög vinsælar. „Ég býð líka upp á einkatúra á þeim tímum sem fólk óskar eftir, þá skiptir engu hvort það er dagur eða nótt. Þetta hentar vel fyrir starfsmannaferðir, steggjun eða gæsun, vinaferðir eða annað.“

Sambýliskona Daða heitir Barbara Wenzl og er frá Austurríki. Hún er hestakona og hefur lokið námi frá hestafræðideild háskólans á Hólum og vinnur á hrossaræktarbúinu hjá Lilju Pálmadóttur á Hofi á Höfðaströnd.

Örlög ráðin á páskaballi

„Daði var að vinna sem smiður á nemendagörðunum á Hólum þegar ég kom þangað til náms fyrir tíu árum. Hann var fyrsti maðurinn sem ég hitti þar og var í blárri joggingpeysu, sem enn er til og ég er alltaf að reyna að fela eða henda, en honum tekst alltaf að koma í veg fyrir það,“ segir Barbara og hlær þegar hún rifjar upp þeirra fyrsta fund.

„Við byrjuðum ekki saman fyrr en um vorið, á páskaballi í Miðgarði. En það skemmtilega var að við nenntum hvorugt á þetta ball, en vinir okkar drógu okkur hvort í sínu lagi þangað. Og þar með voru örlögin ráðin.“

Byrjaði hjá Magna í Árgerði

Barbara kom fyrst til Íslands nokkrum árum áður en hún hitti Daða, eða fyrir 17 árum, þegar hún var aðeins 18 ára.

„Frá því ég var lítil stelpa var ég ákveðin í því að eftir stúdentspróf færi ég til Íslands til að vinna með íslenska hesta. Ég hafði kynnst þeim heima í Austurríki hjá vinkonu minni þar sem ég fékk að fara á hestbak frá því ég var sjö ára. Ég var og er óð í hesta og ég réði mig í vinnu á bænum Árgerði í Eyjafirði hjá Magna og Dísu þegar ég kom hingað fyrst. Ég skildi ekki orð í íslensku og þau hjónin töluðu hvorki ensku né þýsku, enda fullorðið fólk. Það fyrsta sem ég gat sagt á íslensku var: „Má ég fara á hestbak.“

Saltkjöt og siginn fiskur

Barbara segir matinn í Árgerði hafa verið afar ólíkan því sem hún átti að venjast, allan veturinn var saltkjöt og siginn fiskur á borðum og mjólkin beint úr kúnum.

„Þetta var mikil skírn fyrir mig og mér fannst ég algerlega einangruð. Við þurftum að vakna klukkan fimm á morgnana til að fara í fjósið og klára mjaltir áður en mjólkurbíllinn kæmi. Það var ekki einn einasti hestur á bænum þegar ég kom um haustið, þeir voru allir á afréttinum, ég vann því við hefðbundin sveitastörf. En það var gaman þegar hestarnir komu heim af fjalli og ég lærði rosalega mikið af Magna sem er af gamla skólanum. Hann er mín helsta fyrirmynd, enda hestamaður af Guðs náð.“

Draumadjobb á Hofi

Barbara á átta íslenska hesta, hryssu sem Daði gaf henni í útskriftargjöf og afkvæmin hennar.

„Þetta er Varmalækskynið, en ég var að vinna í þrjú ár hjá fólkinu á því ræktunarbúi,“ segir Barbara sem komst í úrslit á síðasta landsmóti þegar hún keppti á Dal frá Háleggstöðum. Nú hefur hún selt hann til Bandaríkjanna, og segir erfitt að þurfa að kveðja. „Þessi hestur hefur gert svo margt fyrir mig og kennt mér mikið, hann hefur sett mig á kortið í hestaheiminum hér á Íslandi. Mér þykir rosalega vænt um hann. Hann verður í dekri þarna úti, enda er hann orðinn 13 vetra.“

Barbara er afar ánægð í starfi sínu á Hofi, þar sem hún hefur verið í sex ár. Þar temur hún, þjálfar og sér um flest sem viðkemur hestunum.

„Lilja er með um 80 hross, hún ræktar, keppir og selur. Þetta eru góð hross og aðstaðan á Hofi er frábær, svo þetta er draumadjobb fyrir mig.“

Hægt er að panta siglingar í gegnum tölvupóst á vefsíðunni: www.hafogland.is en einnig í gegnum skilaboð á Facebook: Siglingar um Skagafjörð, eða í síma: 849-2409
Daði við stýrið á bát sínum sem hann siglir á …
Daði við stýrið á bát sínum sem hann siglir á um Skagafjörð.
Miðnætursiglingar Daða eru vinsælar enda fegurðin einstök.
Miðnætursiglingar Daða eru vinsælar enda fegurðin einstök.
Sjóstangveiðin vekur lukku.
Sjóstangveiðin vekur lukku.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert