Yfir 1.000 stöðvaðir af lögreglu

mbl.is/Þórður

Alls voru í síðustu viku bókuð 434 mál í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi. Flest þessara mála urðu í tengslum við verslunarmannahelgi og voru meðal annars yfir 1.000 ökumenn stöðvaðir í umdæminu.

Kemur þetta fram á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi. Þar segir einnig að mikill fjöldi fólks hafi verið á tjaldsvæðum í Árnes- og Rangárþingi um helgina, en að auki sóttu margir Landeyjahöfn og Bakkaflugvöll heim á leið sinni til Vestmannaeyja.

„Embættið lagði mikið í umferðareftirlit þessa helgi þar sem okkur er mjög í mun að gera það sem í okkar valdi stendur til að fækka alvarlegum umferðarslysum og koma fólki heilu heim. Lögreglumenn voru mjög virkir við umferðareftirlit þessa helgina og voru rúmlega 1000 ökumenn stöðvaðir vítt og breitt um umdæmið til að kanna ástand ökumanna og búnað bifreiða,“ segir á síðu lögreglunnar.

Þá er einnig greint frá því að í samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra hafi lögreglumenn á Suðurlandi fengið aðstoð frá þyrlusveit Landhelgisgæslu Íslands. Með þyrlu að vopni gátu lögreglumenn fylgst með umferð um þjóðveginn og á hálendinu.

Af þeim 1.000 ökumönnum sem stöðvaðir voru um helgina voru 128 kærðir fyrir of hraðan akstur, 21 fyrir ölvun við akstur, 11 fyrir grun um að aka undir áhrifum fíkniefna og 13 fyrir að vera með útrunnin ökuréttindi. Þá voru einnig fimm ökumenn stöðvaðir sem þegar höfðu verið sviptir ökuréttindum sínum.

Tilkynnt var um 24 umferðaróhöpp í síðustu viku, engin þeirra mjög alvarleg.

Síðast liðin vika var frekar erilsöm hjá lögreglumönnum á Suðurlandi. Alls voru bókuð 434 mál í dagbók lögreglunnar þ...

Posted by Lögreglan á Suðurlandi on Tuesday, August 4, 2015
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert