Björt framtíð ekki einsmálsflokkur

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, kannaðist ekki við að flokkurinn væri í einhverskonar kreppu þegar blaðamaður mbl.is hafði samband við hann.

Heiða Kristín Helgadóttir lýsti því yfir í gær að hún myndi ekki taka þingsæti Bjartar Ólafsdóttur í haust, en hún er á leið í fæðingarorlof og sagði að „forysta Bjartar framtíðar þarf að horfa á stöðuna eins og hún er og gera eitthvað í henni,“ í samtali við mbl.is í gær. Heiða Kristín sagði í samtali við Kjarnann í gær að „vandi Bjartrar framtíðar [væri] inni í Bjartri framtíð, hann er ekki vandi kjósenda. Vandinn er ekki tilkominn vegna þess að kjósendur skilja ekki flokkinn heldur er hann vandi formannsins [Guðmundar Steingrímssonar] og þeirra sem starfa í Bjartri framtíð.“

Frétt mbl.is: Heiða Kristín hættir hjá 365

Eldar Ástþórsson, sem áður hefur tekið sæti á þingi, mun hins vegar taka sætið „að öllu óbreyttu,“ sagði Eldar í samtali við mbl.is.

„Þetta hefur verið mjög gott starf í flokknum, ótrúlega gaman og mikið ævintýri að stofna þennan flokk með öllu þessu fólki,“ segir Guðmundur. Hann segir fólk þó að sjálfsögðu uggandi yfir þeim tölum sem birtast í skoðanakönnunum.

Fylgið næstum helmingast

Flokkurinn fékk 8,2% atkvæða í kosningunum 2013 og 6 þingmenn, en mælist nú með 4,4% fylgi. Kjörtímabilið sé hins vegar ekki nema hálfnað og því nægur tími til stefnu fyrir Bjarta framtíð.

Í könnunum um mitt ár í fyrra mældist flokkurinn með ríflega 20% fylgi. „Kannski vorum við farin að telja það of sjálfsagt, en núna er þetta veruleikinn, kannanir þar sem við erum ekki með þingmann,“ segir Guðmundur. „Það finnst okkur ekki sanngjarnt miðað við það erindi sem við eigum við þjóðina.“

Guðmundur hefur ekki skýringar á reiðum höndum á því hvers vegna staðan sé eins og hún er. „Við þurfum að gefa í í því að segja hvað við í Bjartri framtíð erum að gera. Á kjörtímabilinu höfum við fengið fimm þjóðþrifamál í gegn. Þarna finnst mér vera árangur á ýmsum sviðum.“

Klukkufrumvarpið alls ekki eina mál Bjartrar framtíðar

Hann nefnir mál eins og notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk, réttindi umgengnisforeldra, fjarheilbrigðisþjónustu, niðurfellingu tolla á staðgönguvörum mjólkur, kortlagningu ferðamannaleiða á Íslandi sem mál sem flokkurinn hafi náð í gegn og fengið samþykkt.

„Veit einhver af því? Það er tönnlast á því að við séum bara flokkur sem hefur eitt stefnumál, að breyta klukkunni, sem einhverra hluta vegna fór á flug. Við erum vissulega áhugasöm um það lýðheilsumál, en það er langt því frá eina málefnið okkar. Við erum með allt þjóðfélagið undir. Við viljum nýjan gjaldmiðil, meiri arð af auðlindunum, betra menntakerfi og er mjög umhugað um heilbrigðiskerfið,“ segir Guðmundur.

„Við þurfum bara að gefa í og svara fyrir okkur. Við viljum stunda pólitík af skynsemi og yfirvegun og bæta stjórnmálamenningu, en það er ekki okkar eina erindi.“

Heiða Kristín lét af störfum sem stjórnarformaður Bjartrar framtíðar í desember. Guðmundur segir að það hafi verið í góðu. „Ég upplifði þetta sem hennar ákvörðun eftir vandlega íhugun og hún útskýrði það ágætlega. Hún hefði tekið góða syrpu í pólitík og vildi gera eitthvað annað. Það var mjög gaman og mikið ævintýri að stofna Bjarta framtíð með Heiðu. Ég upplifi þetta ekki dramatískt það sem hún er að segja, mér finnst þetta sagt af kærleik. Auðvitað er það okkar sem erum í flokknum og verkefni mitt sem formanns að reyna að rétta við þessa stöðu,“ segir Guðmundur Steingrímsson.

„Það að Björt framtíð sé með lítið fylgi er auðtivað ekki kjósendum að kenna eins og hún bendir réttilega á. Ég vil gjarnan vita hvað ég get gert betur.“

Hann segir Bjarta framtíð og það sem hún stendur fyrir mikilvægt á tímum sem þessum, tímum sem hann segir að „uppgangur þjóðernispópúlískra öfgahreyfinga um allar jarðir“ dæli alllskonar kjaftæðisáróðri í fólk. „Þá þarf afl eins og Bjarta framtíð til að sporna við svoleiðis kjaftæði. Og það erum við staðráðin í að gera,“ segir Guðmundur Steingrímsson.

Heiða Kristín Helgadóttir.
Heiða Kristín Helgadóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson
Eldar Ástþórsson.
Eldar Ástþórsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert