„Utan eðlilegra marka hagsmunagæslu“

„Í gær fórst þú mikinn í fjölmiðlum með gildishlöðnum ummælum um [Stellu Briem] og vitnaðir sjálfur um framgöngu hennar eins og þú hefðir verið sjónarvottur að atvikum. Þá tjáðir þú þig um huglæga afstöðu hennar til samskipta við ónafngreinda skjólstæðinga þína í Vestmannaeyjum 2. ágúst síðastliðinn, gerðir henni upp að hafa rinnið í skap af ástæðu sem þú vitnar um sem staðreynd og hafa látið hendur skipta. Framganga þessi sætir furði og er með henni gengið fram úr öllu hófi í meintri hagsmunagæslu fyrir hönd skjólstæðings.“

Þannig ritar Björn L. Bergsson til Garðars St. Ólafssonar í tilefni af umfjöllun Garðars sem í gær um Stellu Briem.

Frétt mbl.is: Spörkuðu og kýldu vegna femínisma

Eins og fram kemur í bréfinu er tilefni þess umfjöllun hans um líkamsárás sem Stella varð fyrir í Vestmannaeyjum um liðna helgi. Sú opinbera umfjöllun var á margan hátt utan eðlilegra marka hagsmunagæslu lögmanns.

Frétt mbl.is: Viðbrögðin minna á Lúkasarmálið

Hvað atburðinn sjálfan snertir áréttar Björn að Stella leitaði fulltingis yfirvalda og er málið í þeim farvegi sem lögregla ákvað. Á meðan það er til umfjöllunar hjá lögreglu eru engar forsendur til að fjalla um málsatvik á opinberum vettvangi en áréttað skal þó að sú mynd sem Garðar kaus að draga upp er röng.

„Frekar verður ekki fjallað um mál þetta opinberlega af hálfu Stellu og foreldra hennar,“ segir í tilkynningu frá Birni sem hann sendi fjölmiðlum.

Í bréfinu segir ennfremur: „Framganga Stellu hefur ekki gefið tilefni til þess að ráðist sé að henni með þessum hætti gegn persónu hennar og friðhelgi, síst af lögmanni. Það sem Stella gerði var að greina frá því opinberlega að hafa orðið fyrir líkamsárás í Vestmannaeyjum og greina frá því af hvaða ástæðu hún taldi þá árás hafa átt sér stað. Stella nafngreindi engan í þeirri yfirlýsingu.

„Aðrir sem sáu þessa yfirlýsingu og höfðu orðið vitni að árásinni urðu síðan til þess að nafngreina eina stúlku. Nafn hennar var þar með ekki komið í þessa rafrænu umfjöllun fyrir tilstuðlan Stellu. Tekið skal fram vegna umfjöllunar þinnar um að Stella hafi ekki leitað til lögreglu að hún leitaði ásjár yfirvalda í Vestmannaeyjum og aðhlynningar heilbrigðisstarfsmanna og svo að nýju þegar til Reykjavíkur var komið. Heimildarmenn þínir hjá lögreglunni sem ekki gátu staðfest slíkt eru því annað hvort illa upplýstir eða hafa kosið að greina ekki rétt frá málavöxtum.“

Í bréfinu segir einnig: „Vegna yfirlýsingar þinnar og umfjöllunar er óhjákvæmilegt annað en að vekja athygli á 34. grein siðareglna lögmanna sem fjallar um þá skyldu lögmanns að sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna. Eins og þér er kunnugt er æra fólks varin af 71. grein stjórnarskrár og að ærumeiðingar varða við hegningarlög.“

„Hér með er skorað á þig að gæta betra hófs í framgöngu gagnvart dóttur skjólstæðinga minna [foreldra Stellu] hér eftir og beiðist jafnframt afsökunar á orðum þínum um hana. Vart þarf að fjölyrða um hve viðurhlutamikið það kann að reynast að lögmaður gangi svo harkalega fram. Sérstaklega gagnvart ólögráða einstaklingi en það að viðkomandi veiti femínistafélagi innan menntaskóla forstöðu upphefur á engan hátt æruvernd hennar.“

Björn L. Bergsson hæstaréttarlögmaður.
Björn L. Bergsson hæstaréttarlögmaður.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert