Miðvikudagur í 20 metrum

Spá miðvikudagsins er miður skemmtileg.
Spá miðvikudagsins er miður skemmtileg. Skjáskot/ Veðurvefur mbl.is

Í dag verður hvasst og rigning norðan til á landinu en dregur úr í nótt og á morgun er spáð ágætisveðri víða um land með tiltölulega hægum vindi, sólarglennum víða og þurrviðri. 

Á miðvikudaginn er hinsvegar spáð vaxandi suðaustan átt. Búist er við suðaustan hvassviðri síðdegis og þá hvassast við suðvestur ströndina þar sem spáð er upp í 20 metrum á sekúndu.

 „Þessu fylgir rigning svo það er leiðindaveður sem hellist yfir, sérstaklega sunnan og vestanlands þar sem hvassast verður,“ segir Helga Ívarsdóttir veðurfræðingur og áréttar sérstaklega að ekki verði ferðaveður fyrir farartæki með aftanívagna eða fellihýsi. „Þetta verður mun skárra á norðaustanverðu landinu. Hægari vindur og lengst af þurrt.“

Á fimmtudag dregur heldur úr vindi. Áfram verður vætusamt sunnan til á landinu en norðan til verður ágætisveður, þurrt og bjart. Um helgina verða áfram austlægar áttir og einhver væta í flestum landshlutum, einkum suðaustan og austan lands. Fremur milti verður í veðri með hita á bilinu 8 til 17 stig alla vikuna.

„Ætli suðvestur og vesturlandið sé ekki einna skást um helgina en svo eru góðir kaflar annars staðar,“ segir Helga um hvert ferðalangar gætu sett stefnuna um helgina. „Ef spáin gengur eftir verður sunnudagurinn mjög fín fyrir norðan þó laugardagurinn sé leiðinlegur en það kemur betur í ljós þegar nær dregur.“

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert